136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

vinna við fjárlög 2010.

[13:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég tel rétt að árétta að í tilviki tónlistarhússins hafa engin fyrirheit verið gefin um frekari fjármuni inn í það dæmi en fyrri ríkisstjórn var búin að gefa og samkomulag ríkis og borgar gerði ráð fyrir. Það er á þeim grunni sem málið er hvílt. Það er að sjálfsögðu sjónarmið að það hefði átt að hætta við áframhaldið og láta þennan kumbalda standa eins og hann var á sig kominn en það var mat manna að því mundi fylgja gríðarlegt tjón. Annaðhvort hefði þá orðið að rífa húsið niður og fjarlægja það eða halda áfram með framkvæmdirnar síðar og það hefði haft í för með sér gríðarlegan viðbótarkostnað. Það getur svo auðvitað verið stefna út af fyrir sig að betra sé að hafa þá 600 iðnaðarmenn sem fá þarna vinnu næstu missirin á atvinnuleysisskrá og það er kannski stefna Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi tæknilegar útfærslur hvað varðar fjárlagagerð og tekjuöflun og sparnað á næsta ári verður það auðvitað fyrst og fremst í hendi nýrrar ríkisstjórnar að framkvæma það. Það liggur í hlutarins eðli. En ætli það sé ekki óhætt að segja að líklega verði farin blönduð leið í því. (Forseti hringir.) Ég held að það verði engin kraftaverk gerð á hvora hliðina sem er og þess vegna sé líklegast að menn velji þarna einhverja blandaða leið tekjuöflunar og sparnaðar.