136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og sérstaklega svör hæstv. iðnaðarráðherra sem mér finnst mjög uppörvandi. Ég veit af hans mikla áhuga á því að styðja við bakið á þessu verki sem við höfum hér verið að tala um.

Það er aðalatriðið að við reynum að finna einhverja framtíðarlausn varðandi afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Það er auðvitað hægt að hugsa sér alls konar smáskammtalækningar, sem menn hafa verið að ræða um, sem til skamms tíma mundu ef til vill kosta minni peninga. En það er hins vegar engin framtíðarlausn og það mundi ekki fullnægja þeim kröfum og óskum sem uppi eru, bæði af hálfu notenda á Vestfjörðum og eins varðandi þá möguleika sem við þurfum að geta boðið upp á varðandi frekari atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Þetta mál skiptir gríðarlega miklu máli fyrir þennan landsfjórðung í þeirri atvinnulegu sókn sem þarf að eiga sér stað þar.

Varðandi Hvalárvirkjunina vil ég segja að það er auðvitað mjög spennandi kostur. Við vitum að sú virkjun mun standa og falla með því hvernig okkur tekst að létta tengikostnaðinum af þeirri framkvæmd. Ég tel að full rök mæli með því að tekið sé á því með samfélagslegum hætti. Við vitum það að til þess að tryggja raforkuöryggi og afhendingaröryggi orkunnar mun þurfa að kosta til þess fjármunum. Hlutir eins og það að styrkja vesturlínu eða einhverjar aðrar leiðir eru auðvitað sjálfsagðir en þær munu ekki uppfylla að öllu þær kröfur sem við gerum í þessum efnum.

Ég veit að gríðarlegur áhugi hefur verið á þessu máli, t.d. innan vébanda Orkubús Vestfjarða og þeir hafa verið að vinna heilmikið að þessum málum. Það sama á við um einkafélagið Vesturorku sem hefur nú vatnsréttindin varðandi Hvalárvirkjun. En þetta mun allt saman standa og falla með því hvort hægt sé að velta af þessari framkvæmd kostnaðinum við dreifinguna, tengikostnaðinum sjálfum, og um það snýst þetta mál.

Ég lít þannig á að yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra séu til áréttingar á því að hann telji að þetta eigi að vera samfélagslegt verkefni og ég er honum algjörlega sammála. Þetta er eitt af því sem við þurfum að vinna að í kjölfar þess (Forseti hringir.) að nýja skýrslan lítur dagsins ljós vegna þess að búið er að vinna heilmikla undirbúningsvinnu og gríðarlegur áhugi er til staðar hjá þeim framkvæmdaaðilum sem standa að þessu verki.