136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

efling kræklingaræktar.

380. mál
[15:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram eru mikil tækifæri í þessari atvinnugrein en jafnframt eru ýmsir þröskuldar sem þarf að komast yfir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að halda áfram því góða starfi sem hæstv. fyrrverandi ráðherra hafði hafið í þessu efni og því samstarfi sem var komið á við samtök kræklingaræktenda. Þau gegna lykilhlutverki í því að þróa þessa atvinnugrein áfram.

Það er margt sem þarf að huga að, það þarf líka að þróa aðferðir til að flytja kræklinginn á markað þannig að sem hæst verð fáist fyrir hann. Það kom m.a. fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að flutningskostnaður er mjög hár miðað við verðmæti kræklingsins og því þarf að þróa betri aðferðir við að koma þessari afurð á markað þannig að hún sé sem ferskust þegar hún kemur til neytenda.

Að mínu mati þarf einnig að kortleggja þau svæði þar sem hægt er og skynsamlegt er að ráðast í þessa atvinnustarfsemi. Það er engum í hag að hafin verði ræktun á svæðum sem alls ekki eru til þess fallin. Þess vegna er nauðsynlegt að ráðast í grunnrannsóknir á svæðunum þannig að hægt sé að skipuleggja og hreinlega kortleggja þau svæði við landið þar sem er mögulegt að stunda þessa ræktun.

Kræklingarækt svipar kannski meira til landbúnaðar en sjávarútvegs og það þarf að hafa þau svæði nokkuð klár sem eru möguleg til að veita einhverja uppskeru.

Það er hugsanlegt að það þurfi að þróa búnaðinn betur. Mér heyrðist það á þeim kræklingaræktendum sem við töluðum við. (Forseti hringir.) Það er fleira sem þarf að huga að, t.d. skipulagi rannsókna eins og hæstv. ráðherra kom inn á.