136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

framkvæmd samgönguáætlunar.

382. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Í fyrsta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar í ár, sem gefið var út þann 26. janúar, birtist grein eftir vegamálastjóra undir heitinu Útboð hefjast að nýju. Þar segir hann frá því að 5 milljarða vanti upp á fjárheimildir ársins til að hægt verði að standa við núgildandi samgönguáætlun hvað nýframkvæmdir varðar. Tilmæli séu um að fyrst og fremst verði farið í verkefni á suðvesturhorninu og að um helmingi fjárheimilda til nýframkvæmda á árinu verði veitt til verkefna á því svæði en afgangurinn dreifist um landið. Þetta staðfesti samgönguráðherra nokkrum dögum síðar í grein í Morgunblaðinu, sem birtist föstudaginn 30. janúar. Þar segir hann að 6–7 milljarðar verði veittir til nýrra samgönguframkvæmda á árinu og einnig, með leyfi forseta:

„Við val á verkum hef ég lagt aukna áherslu á suðvesturhorn landsins og á samgöngubætur sem krefjast mikils mannafla. Er í fyrstunni miðað við að um helmingur af þeim 6–7 milljörðum króna sem til ráðstöfunar eru fari í verkefni á Suðvesturlandi og hinn helmingurinn skiptist á önnur landsvæði.“

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að nauðsynlegt er að miða við það að mannaflsþörf þeirra verkefna sem ráðist er í sé sem allra mest vegna þess ástands sem nú er í atvinnumálum þjóðarinnar. Ég er hins vegar ekki sammála þegar kemur að forgangsröðun verkefna. Ég sé enga ástæðu til að ýta verkefnum á suðvesturhorni landsins framar í röðina. Ég sé engin rök sem hníga sérstaklega að því. Ég bendi á að starfsemi verktaka er ekki svæðisbundin. Verktakar eru færanlegir á milli landsvæða og mannskapurinn einnig. Ég nefni dæmi um Suðurverk á Hólmahálsi, Vopnafirði og Landeyjahöfn en höfuðstöðvar þess eru í Kópavogi.

Ég nefni einnig að á Egilsstöðum eru öflug verktakafyrirtæki og Héraðsverk vinnur t.d. í Skagafirði og á Sléttu þannig að verktakarnir eru ekki staðbundnir. Það er sem sagt engin nauðsyn sem rekur til þess að beint samband sé á milli svæðisskiptingar framkvæmda og atvinnuástands á svæðunum. Vinnuaflið er færanlegt, ekki síst í þessum geira þar sem oftar en ekki er unnið á vöktum og úthöldum, og það eitt og sér að vegur sé lagður á svæðið þar sem atvinnuástand er bagalegt er engin trygging fyrir því að það batni. Það eru kannski nokkrar líkur á að slíkt vinnuafl megi nýta til verkefna annars staðar á landinu.

Ég spyr því ráðherrann hvort nokkur þörf sé fyrir aðrar viðmiðanir við úthlutun vegafjár nú en í venjulegu árferði? Hvort ekki sé réttara að miða áfram við það að samgönguframkvæmdir stytti leiðir, auki öryggi og færi byggðir í nánara samband en að þær séu staðsettar í einu kjördæmi frekar en öðru. Ég bið ráðherrann um að reifa fyrir þinginu þau sjónarmið sem liggja að baki ákvörðuninni.

Að auki tel ég brýnt að hann upplýsi okkur um það hvaða sjónarmið gildi í þetta skipti við ákvörðun (Forseti hringir.) framkvæmda og að síðustu spyr ég hvernig hann hyggst ná fram (Forseti hringir.) markmiðum gildandi samgönguáætlunar í ljósi fyrrgreindrar ákvörðunar sinnar.