136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni og þakka það sem hæstv. ráðherra lýsti hér yfir, að hann hefði undirritað viljayfirlýsingu hinn 24. febrúar sl. um að gengið yrði til samninga um að framlengja samninginn við Sæferðir um styrki til siglinga Baldurs yfir Breiðafjörð. Ég skildi svar hæstv. ráðherra svo að það væri ekki búið að gera þennan samning.

Ég fagna þessu, það hefur dregist úr hömlu hjá ráðuneytinu að viðurkenna þá staðreynd að vegaframkvæmdum verður ekki lokið áður en samningurinn rennur út og þar með hefur orðið algjör forsendubrestur í samningnum.

Ég ítreka það sem hér var kynnt frá bæjarráði Vesturbyggðar, að ekki einungis sé nóg að framlengja þennan samning, þ.e. forsendurnar í framlengingunni, miðað við fjölda ferða, að þær sé óbreyttar frá árinu 2007, þ.e. áður en byrjað var að skera niður vegna þessara samgöngubóta sem (Forseti hringir.) ekki eru orðnar að veruleika.