136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:36]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það ráðslag forustu verkalýðshreyfingarinnar að semja við fyrirtæki landsins um að fresta kauphækkun til launafólks um ótiltekinn tíma, 13.500 kr. á mánuði, hefur verið umdeild en varð fyrst í skotlínunni þegar í ljós kom að fyrirtækið HB Grandi ákvað að nýta sér góða afkomu fyrirtækisins, hagnað upp á 2,3 milljarða, til að greiða hluthöfunum út 8% arð, þ.e. þá 184 millj. kr.

Nú má taka undir að það er eðlilegt að hlutafélög greiði eigendum sínum arð við eðlilegar kringumstæður en það má setja spurningarmerki við það fyrirkomulag þegar við búum við sérstakar aðstæður í íslensku efnahagslífi eins og nú er og bæði ríkissjóður og launamenn hafa ákveðið að leggja sitt af mörkum til að gera rekstur atvinnufyrirtækjanna bærilegri þannig að þau geti haldið sjó og staðið áfram í sínum rekstri án þess að veruleg áföll verði. Þessir aðilar leggja því sitt af mörkum til að atvinnureksturinn geti gengið.

Þá verður umdeilanlegt að hluthafarnir líti svo á að þeir geti tekið til sín arðgreiðslur án tillits til framlaga annarra og í raun tekið til sín framlög annarra, bæði launamanna og ríkissjóðs. Það er óeðlilegt, það gagnrýni ég harðlega, virðulegi forseti, og þess vegna hef ég ákveðið að taka þetta mál upp hér á Alþingi og þakka bæði forseta og hæstv. forsætisráðherra fyrir að gera mér það kleift.

Fyrirtækin í sjávarútvegi búa í dag við ríkisstuðning, beinan og óbeinan. Fyrir rúmu ári samþykkti Alþingi lög sem afnámu veiðigjald af þorskveiðum og helminguðu áform af veiðigjaldi í öðrum tegundum þannig að sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem áttu að greiða 1.000 millj. kr. á ári í ríkissjóð sem gjald fyrir afnot af veiðiheimildum og aðgang að auðlind landsmanna greiða nú aðeins um 440 millj. kr. Stuðningur ríkissjóðs til þessarar atvinnugreinar er nærri 60% afsláttur. Menn skulu muna að sáttin í umræðunni um sjávarútvegsmálin og stjórn fiskveiða var að hafa óbreytt kerfi gegn því að þeir sem nýttu heimildina og auðlindina borguðu fyrir það. Nú er búið að taka sáttina af.

Fyrirtækið HB Grandi nýtur góðs af þessum stuðningi ríkissjóðs. Það má segja að á þessum tveimur fiskveiðiárum sem eftirgjöf ríkissjóðs stendur yfir njóti fyrirtækið um 120 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði. Það er ríkisstyrkur til þessa fyrirtækis sem er rökstuddur með samdrætti í þorskveiðum úr 190.000 í 130.000 tonn. Nú er aftur búið að auka þorskveiðar um helming af því sem skorið var niður án þess að nokkuð sé hreyft við því sem fyrirtækin eiga að greiða fyrir afnot af auðlindinni sem á að vera í eigu þjóðarinnar allrar.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Eiga þær leikreglur að gilda áfram hjá nýrri ríkisstjórn að þessir aðilar fái sérmeðferð og þeir leggi ekki sitt af mörkum til að þjóðarbúið geti komist út úr þeim efnahagslegu þrengingum sem við erum í?

Í öðru lagi voru engar breytingar gerðar á reglum um framsal. Sjávarútvegsfyrirtæki landsins geta nú ákveðið að veiða ekki sínar heimildir og látið aðra veiða fyrir sig gegn gjaldi. Þau taka stórfé fyrir það að leyfa öðrum að veiða án þess að skila krónu af því í ríkissjóð. Þess voru dæmi hér á einveldisöld konunga að skattheimtumenn voru fengnir til að innheimta skatta fyrir þá en venjan var þá sú að þeir skiluðu peningunum, fengu umbun fyrir. Í þessu tilviki skila þeir engu, taka allt í sinn vasa. Þetta er einkavædd skattheimta sem er engin ástæða til að þola, virðulegi forseti.

Fyrirtækið HB Grandi gæti ef það vildi leigt sínar veiðiheimildir fyrir u.þ.b. 2.500 millj. kr. á einu fiskveiðiári. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins hefur það leigt frá sér um 3.700 þorskígildistonn á síðasta fiskveiðiári og um 1.700 á þessu.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, hafa hlutabréfaeigendur notið sérstakra vildarkjara á umliðnum árum. Þeir borga miklu lægri skatta en aðrir landsmenn, þeir hafa fengið heimild til að flytja arðgreiðslur sínar úr landi án þess að borga skatt af þeim og þeir hafa fengið eftirgjöf af söluhagnaði þannig að arðgreiðslur og tekjuskattur af söluhagnaði voru felld niður með sérstökum lögum. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur til af nýrri ríkisstjórn að gera fjármagnseigendur að þátttakendum í endurreisn íslensks þjóðfélags?