136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki hvar hv. þm. Bjarni Benediktsson, 3. þm. Suðvest., hefur verið á umliðnum einum eða tveimur mánuðum. (Gripið fram í.) Hefur farið fram hjá hv. þingmanni allur sá fjöldi mála sem ríkisstjórnin hefur flutt bæði vegna aðgerða fyrir heimilin í landinu og fyrir fyrirtækin? Á hv. þingmaður ekki sæti í einni af þeim nefndum sem fjalla um mörg af þessum brýnu málum? Ég er með þennan lista hér fyrir framan mig. Þetta eru yfir 40 mál og ég held að 20 af þeim séu afgreidd en það vantar enn að afgreiða 20. Flest þeirra snerta heimilin og fyrirtækin í landinu og endurreisn almennt á fjármálastofnunum. Einn liður í því, af því að verið er að blanda Seðlabankanum í þetta, var auðvitað að endurvekja traust og trúverðugleika á Seðlabanka Íslands sem sárlega vantaði, og það veit hv. þingmaður — að endurvekja það traust innan lands og ekki síður á alþjóðavettvangi.

Mig undrar það satt að segja að hv. þingmaður skuli halda því fram að engin mál séu lögð fyrir þingið sem snerta atvinnulífið eða heimilin í landinu. (Forseti hringir.) Hvar hefur hv. þingmaður verið? (Gripið fram í: Í prófkjöri.) Í prófkjöri, já.