136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

barnaverndarlög og barnalög.

19. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með þessum breytingum er vissulega verið að bregðast við ákveðnum dómi og það er í raun upphaf þessara breytinga að í ljós kom að ákvæði í lögum voru ekki nægilega skýr. Eins er verið að bregðast við því, eins og hv. þingmaður bendir á, að þegar mál liggja á mörkum nefnda eða þegar verið er að gera hreinsun í ákveðnum lagabálkum þá er alltaf hætta á því að ákvæði falli niður.

Það hafði gerst hvað varðaði barnaverndarnefndirnar, að í millifærslu á lögum féll niður að barnaverndarnefndum væri heimilt eða ættu rétt á að vera við skýrslutöku. Þetta gerðist í hreinsunaraðgerð en var aldrei meiningin að yrði svo. En þetta þarf að vera alveg skýrt, að barnaverndarnefndum sé meira en heimilt, að þær hafi fullan rétt á að vera við skýrslutökur barna yngri en 18 ára svo hægt sé að komast hjá því að börn gefi óþarflega oft skýrslu og fari yfir viðkvæm og óþægileg mál. Því er mikilvægt að fulltrúar barnaverndarnefnda séu viðstaddir skýrslutöku alveg frá upphafi. (Forseti hringir.) Með því er í raun og veru verið að vernda barnið og það var hluti af því sem var tekið tillit til.