136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

tilhögun þingfundar.

[14:13]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal rakti með hvaða hætti dagskrá er skipað hér í dag og sýndi fram á þarfleysi þess að vera að draga umræðuna og heimila umræður fram yfir miðnætti eða þess vegna fram á nótt.

Vandamálið felst í því að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki samstiga um það með hvaða hætti skuli afgreiða mál. Mikilvæg mál standa föst og eru ekki afgreidd út úr nefndum. Þess vegna kemur það þannig út að mikilvæg mál, sem snúast um hagsmuni heimila og taka á þeim bráðavanda sem við er að glíma í þjóðfélaginu, eru ekki á dagskrá, en miða á við það að ganga frá og leggja fram ákveðin gælumálefni sem hafa ekkert að gera með þann brýna vanda sem um er að ræða.

Ég segi því nei við því að dagskráin sé lengd fram yfir miðnætti en er tilbúinn að vera hér til (Forseti hringir.) miðnættis til þess að afgreiða þau mál sem þarf að afgreiða og tel (Forseti hringir.) þá rétt að menn forgangsraði dagskrármálum eðlilega.