136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[17:46]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þau svör sem hér voru færð fram. Ég harma kannski fyrst og fremst að hæstv. ráðherra sjái ekki fyrir sér hvenær flytja megi starfsstöð þess forstöðumanns sem er fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Ég held að það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti svarað því greinilegar í seinna andsvari hvenær það sæist fyrir að sú staða yrði flutt austur. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt. Heimaaðilarnir skipta gríðarlega miklu máli. Samstarf og samvinna við heimaaðila skiptir miklu máli og það vitum við varðandi skipulagsmálin. Þau eignarlönd sem þurfa að færast í auknum mæli undir Vatnajökulsþjóðgarð — það skiptir gríðarlega miklu máli að tengingin við heimaaðila sé mjög góð.

Auðvitað skiptir frumvarpið, hæstv. umhverfisráðherra, miklu máli þó að það beinist ekki beint að Vatnajökulsþjóðgarði því það er hann sem er forsenda þess að setja þarf löggjöf um námskeiðin og hvernig tilhögun þeirra er höfð. Ég vil taka það mjög skýrt fram að mér finnst að Vatnajökulsþjóðgarður sé miðjumöndullinn í þessu máli og utan á það hleðst svo aftur þetta frumvarp og ýmis önnur verkefni sem þarf að vinna.

Ég vil fyrst og fremst þakka fyrir svörin en vildi gjarnan fá að heyra betur og frekar um það hvenær hæstv. umhverfisráðherra telur að starfsstöð forstöðumannsins flytjist austur.