136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

náttúruvernd.

362. mál
[18:00]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég má til með að fara aðeins inn á Vatnajökulsþjóðgarð af því að hann var nefndur í andsvörum á undan. Ég vil byrja á því að óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með það að hún skuli vera að fara að taka fyrstu skóflustunguna að gestastofu á Skriðuklaustri 16. apríl. Þarna er komið í framkvæmd eitt af þeim stefnumálum sem við höfðum, ríkisstjórnin sem á undan sat, og það er ábyggilega ánægjulegt fyrir hæstv. umhverfisráðherra að koma þessu til framkvæmdar. Ég tek algjörlega undir að það skiptir máli að Vatnajökulsþjóðgarður er orðinn að veruleika og að þar verði til fjöldi starfa í þjónustu við ferðamenn.

Mér er það minnisstætt að þegar við fjölluðum um Vatnajökulsþjóðgarð fór það dálítið á taugarnar á sumum þingmönnum, sérstaklega höfuðborgarsvæðisins, að þessi svæðisráð skyldu vera sett á stofn. Ég tel það hins vegar mjög mikils virði að þau séu til staðar þannig að tengingin við heimamenn og sveitarstjórnir á hverju svæði fyrir sig geti haft nokkuð um það að segja hvernig þjóðgarðinum er stýrt. Sú hugmynd að setja stjórnskipulagið þannig upp kom fram í þingmannanefnd sem ég átti m.a. sæti í með öðrum góðum þingmönnum. En þegar við fórum um landið til að fara yfir það hvernig menn sæju helst fyrir sér að þjóðgarðurinn gæti bæði litið út og hvernig hann gæti orðið til atvinnusköpunar úti í héruðum, þá fundum við einmitt þetta tengslaleysi sem hæstv. umhverfisráðherra nefndi hér að hefði oft komið upp, tengslaleysi við heimamenn, sveitarstjórnir, fólk sem ætlaði að starfa við þjóðgarðinn og við ferðaþjónustu sem ætlaði að nýta þá þjóðgarða sem þá voru til staðar. Þess vegna kom upp sú hugmynd að hafa skipulagið með þessum hætti, að svæðisráðin yrðu þessi tenging.

Nú boðar hæstv. umhverfisráðherra það að hún vilji skoða það að hafa eina yfirstofnun yfir þjóðgörðum landsins. Ég tel í sjálfu sér að það megi skoða og ætla alls ekki að leggjast gegn því en ég hef hins vegar miklar efasemdir um að Þingvellir eigi að vera inni í slíkri stofnun. Ég held að við eigum að halda því fyrirkomulagi sem er búið að þróast og þroskast í kringum Þingvelli. Þingvellir hafa ákveðna sérstöðu sem þessi nánast heilagi staður fyrir okkur Íslendinga og mér finnst mjög eðlilegt að við höfum sérstakan ramma um það hvernig við stýrum og skipuleggjum starf á Þingvöllum. Þingvellir eru annars eðlis en aðrir þjóðgarðar. Ég mun halda því sjónarmiði mínu á lofti, hvort sem það verður innan þings eða utan, þegar hæstv. umhverfisráðherra kemur með frumvarp í þessa veru.

Enn og aftur óska ég hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með það hversu vel henni gengur að fá fram þessi verk. Sem Austfirðingur fagna ég því auðvitað að þarna séu að fara af stað framkvæmdir á mínu heimasvæði.

Hæstv. forseti. Það sem við erum hér með til umræðu er frumvarp um breytingu á lögum um náttúruvernd þar sem verið er að lögfesta heimild Umhverfisstofnunar til gjaldtöku vegna námskeiðs í landvörslu. Sömuleiðis heimild Umhverfisstofnunar til að halda slík námskeið. Til að fara aðeins yfir það hefur þessi heimild verið til staðar frá 1990, í reglugerð, en er með frumvarpinu nú lagt til að verði lögfest.

Ég tel það í sjálfu sér jákvætt skref en það sést í umsögnum sem bárust til umhverfisnefndar að ekki eru allir algjörlega sáttir við þau skref sem eru tekin og þess vegna er rétt að reifa þau.

Í frumvarpi umhverfisráðherra er fjallað um helstu efnisatriði slíks námskeiðs og þau eru reglur varðandi umhverfi og náttúruvernd, stígagerð, fræðsla gesta á náttúruverndarsvæðum og öryggismál tengd þessum svæðum. Umhverfisnefnd leggur hins vegar til að sú málsgrein frumvarpsins falli á brott þar sem þetta er og núverandi fyrirkomulag, þ.e. að ráðherra sé skylt að kveða á um þetta í reglugerð, verði áfram í gildi. Ég tel þetta í raun til bóta fyrir frumvarpið.

Samkvæmt frumvarpinu yrði skilyrði þess að fá að starfa sem landvörður að hafa klárað þetta námskeið Umhverfisstofnunar. Yrði þó opið fyrir þann möguleika að fólk geti fengið samþykkt til slíkra starfa ef það hefur öðlast menntun sem innifelur sömu efnisþætti og námskeið Umhverfisstofnunar. Yrði það þá háð mati Umhverfisstofnunar hverju sinni hvernig þau námskeið ættu að vera.

Nefndin leggur einnig til breytingu á þessu efnisatriði og rökstyður það með þessum hætti, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að ekki eigi að gera það að skilyrði fyrir rétti til að starfa sem landvörður að viðkomandi hafi lokið námskeiðinu enda sé óeðlilegt að Umhverfisstofnun sem haldi námskeið fyrir landverði setji jafnframt reglur um námskröfur þeirra. Þá er til staðar reglugerð umhverfisráðherra sem kveður á um námskröfurnar og ekkert því til fyrirstöðu að halda því fyrirkomulagi.“

Ég tel þessa tillögu umhverfisnefndar einnig vera til bóta og það er óeðlilegt að gera kröfu um að hafa lokið einhverju tilteknu námskeiði á vegum eins aðila til að öðlast rétt til að gegna starfi á vegum hins opinbera og láta síðan sömu stofnun meta hvort annars konar menntun sé sambærileg við þau námskeið sem þar er boðið upp á.

Nauðsynlegt er að slíkt mat sé á höndum óháðs aðila, hvort sem það er ráðuneytið sjálft eða einhver annar aðili sem er þá hlutlaus. Það skiptir í sjálfu sér ekki höfuðmáli en mestu skiptir að þarna sé aðskilið á milli þess aðila sem heldur námskeiðið og hins sem metur hvers konar nám annað skuli teljast sambærilegt.

Hæstv. forseti. Það er að mínu mati ákaflega mikilvægt ákvæði að hafa í lögunum að opið sé fyrir þann möguleika að annað nám en námskeið Umhverfisstofnunar veiti mönnum réttindi til að starfa við landvörslu enda kemur það í veg fyrir möguleika Umhverfisstofnunar til einokunar á menntun sem þessari. Það væri slæmt fyrirkomulag. Menntastofnunum og jafnvel einkaaðilum á að vera frjálst að bjóða upp á menntun af þessu tagi, ef þeim sýnist svo, að gefinni ákveðinni forskrift varðandi innihald og gæðakröfur til slíks náms. Það væri ótækt ef ríkisstofnun eða Umhverfisstofnun hefði einhvern einkarétt á þessu.

Mikill fjöldi sækir þessi námskeið í dag. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra segir að á milli 15 og 20 hafi sótt þessi námskeið Umhverfisstofnunar hvert ár. Það er nokkur fjöldi en segir ekki alla söguna því að nemendur í ferðamálafræði við Hólaskóla hafa einnig möguleika á að útskrifast með landvarðarréttindi og það byggist á samkomulagi skólans við Umhverfisstofnun.

Fordæmi fyrir þessu fyrirkomulagi er þannig til staðar í dag og ljóst að ekkert er því til fyrirstöðu að námið fari fram annars staðar en hjá Umhverfisstofnun sjálfri.

Annars konar nám mætti einnig nefna sem mögulega gæti verið til þess fallið að búa menn undir störf í landvörslu en ofangreint námskeið Umhverfisstofnunar og ferðamáladeildar Hólaskóla. Ber þar hæst leiðsögumannanám ýmiss konar og einnig nám í jarðfræði, landfræði og jafnvel líffræði. Það má ekki gera kröfur til námskeiðssetu of þröngar.

Hæstv. forseti. Þá vil ég víkja nokkrum orðum að gjaldtökunni. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir að miðað við núverandi fyrirkomulag vanti um hálfa milljón upp á að náist upp í kostnað við námskeiðahaldið miðað við þær upphæðir sem Umhverfisstofnun rukkar fyrir námskeiðahaldið í dag. Það er nauðsynlegt að bregðast við þessu enda eðlilegt að stofnunin hafi upp í kostnað við námskeiðahaldið en það er jákvætt að veita stofnuninni ótvíræða heimild til að rukka gjald fyrir námskeiðin þannig að þetta náist í höfn.

Enn fremur er mjög mikilvægt að hámarka þá upphæð sem stofnunin má rukka inn hverju sinni við þann kostnað sem hlýst af námskeiðahaldinu enda eru námskeiðin auðvitað ekki haldin með gróðasjónarmið í huga. Þess ber að geta að Landvarðafélagið tekur fram í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Landvarðafélag Íslands bendir á að engin önnur starfsstétt sem starfar fyrir ríkisstofnun greiðir fyrir menntun sína á þennan hátt. Færa má rök fyrir því að gjaldtakan sé einungis réttlætanleg ef sá sem sækir námskeiðið ætlar sér ekki að starfa sem landvörður. Landvarðafélag Íslands gerir það að tillögu sinni að hófleg gjaldtaka verði heimiluð með það að skilyrði að námskeiðsgjald verði endurgreitt að fullu þeim sem ráðnir eru til starfa sem landverðir.“

Í þessu samhengi vil ég inna ráðherra eftir því hvort hún hafi velt því fyrir sér að taka tillit til slíkra athugasemda og einnig formann nefndarinnar hvort menn hafi velt þessu fyrir sér í nefndinni hvort þarna væri um óeðlilega gjaldtöku að ræða á þá starfsmenn sem eru komnir til starfa hjá þessari ríkisstofnun. Þetta eru atriði sem mér finnst mjög vert að velta fyrir sér. Það kemur einnig fram í fleiri umsögnum að menn eru ekki alveg sáttir við þessa útfærslu hérna. Ef ég vitna t.d. í athugasemdir frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins varða þær það hverjir mega halda námskeiðin og þar segir, með leyfi forseta:

„Umsagnaraðilar [SA og SI] mótmæla því að lögfest verði að Umhverfisstofnun haldi námskeiðin. Hætta er á hagsmunaárekstrum verði frumvarpið að lögum því stofnunin mun hafa tekjur af námskeiðahaldi og henni verður í hag að auka umsvif námskeiða með auknum kröfum til nemenda og umsækjenda. Einnig er óeðlilegt að einn og sami aðilinn ákveði menntunarkröfurnar, haldi námskeið og próf, veiti samþykki fyrir öðru jafngildu námi, veiti réttindi, taki svo gjald fyrir allt saman og ráði stærstan hluta þátttakenda í vinnu hjá sér.“

Það er ljóst að með breytingu nefndarinnar var tekið tillit til hluta af þessum athugasemdum en ekki að öllu leyti. Ég vek athygli á því. Svo segir hér áfram í athugasemdum Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins, með leyfi forseta:

„Viðurkenndar menntastofnanir hafa yfir að ráða þekkingu og reynslu á þessu sviði og má nefna sem dæmi Ferðamálaskólann og Leiðsöguskólann. Eðlilegt er að gefa slíkum aðilum kost á að halda námskeið fyrir þennan hóp. Kröfur um efni námskeiðs eru settar fram í reglugerð nr. 61/1990 og leggja umsagnaraðilar til að Umhverfisstofnun verði falið að hafa eftirlit með að námskeið sem haldin eru standist kröfurnar.“

Það er eitt og annað sem kom fram hjá umsagnaraðilum sem menn hafa við þetta að athuga og ég spyr því formann nefndarinnar hvort þetta hafi allt verið skoðað og íhugað við vinnslu málsins.

Landvernd tekur þann jákvæða punkt í þessu sem ég get alveg tekið undir — hún segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hafa stjórnvöld skapað fjölmörg tækifæri til atvinnusköpunar í tengslum við landvörslu, leiðsögn og aðra þætti sem tengjast ferðaþjónustu. Atvinnutækifærin er að finna í öllum sveitarfélögum sem eiga land að þjóðgarðinum og er því stofnun hans afar jákvæð með tilliti til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Ein af forsendum þess að vel geti tekist til í þessum efnum er gott bakland og viðeigandi menntun á meðal heimamanna og annarra sem að málum koma. Frumvarpið styrkir grundvöll fræðslustarfseminnar sem til þarf og telur Landvernd þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu vera til bóta.“

Ég vildi að síðustu vitna aðeins í umsögn Náttúrufræðistofnunar sem er ekki alveg ánægð með frumvarpið og segir m.a. í umsögn hennar, með leyfi forseta:

„Hins vegar virðist frumvarpið vera afar takmarkað og ónákvæmt þegar kemur að menntun landvarða og jafnvel afturför frá því sem stefnt hefur verið að í mörg ár.“

Síðan kemur hér skýring á landvarðarstarfinu frá Náttúrufræðistofnun, með leyfi forseta:

„Landvarsla er starf sem felur í sér sambland margra þátta. Það sem er grunnþáttur í starfinu og sameinar aðra þætti er náttúruvernd. Til að geta starfað að landvörslu á Íslandi með náttúruvernd að markmiði eru tveir þættir sem verða að vera fyrir hendi. Annars vegar grunnþekking á náttúru Íslands og hins vegar hæfileikar til að nota þá þekkingu til fræðslu svo sem við umhverfistúlkun (Environmental Interpretation) en einnig þarf kunnáttan að nýtast til að „kenna“ og til að fræða um náttúruvernd vegna t.d. þjónustu við ferðamenn, eftirlits og umsjónar með náttúruverndarsvæðum og landinu almennt. Öryggi ferðamanna, stígagerð og verkkunnátta á ýmsum sviðum er einnig nauðsynleg til landvörslu en flokkast samt til undirþátta þótt aldrei megi vanmeta þá. Aðrir en landverðir geta sinnt þessum þáttum. Öryggi ferðamanna hér á landi er t.d. samvinna milli margra aðila og fer eftir svæðum t.d. landvarða í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum, lögreglu, lækna og björgunarsveita en getur aldrei verið aðalþáttur í starfi landvarða. Starf björgunarsveitamanna þarfnast t.d. mikillar sérþekkingar og reynslu sem ekki er hægt að ætlast til að allir landverðir hafi að fullu en skyndihjálp hefur t.d. verið kennd í áraraðir á landvarðanámskeiðum. Þekking á lögum og reglum um náttúruvernd og uppbyggingu náttúruverndarmála innan lands sem á alþjóðavettvangi er nauðsynleg.

Víða erlendis er landvarðanámskeið mun umfangsmeira en hér á landi og sums staðar sérstakt nám til nokkurra ára þar sem verknám er mjög mikilvægur þáttur í náminu.“ — Svo, hæstv. forseti, bið ég menn að hlýða á þetta: „Frumvarpið, þegar kemur að námi landvarða, hefur öll einkenni þess að forgangsraða náminu rangt og leggja áherslu á reglur, öryggi og stígagerð en“ — og síðan feitletrar Náttúrufræðistofnun hér — „gleymir hreinlega að nefna annan grundvallarþáttinn sem landverðir þurfa að kunna skil á, þ.e. náttúru Íslands.“

Hæstv. forseti. Þetta eru alvarlegar athugasemdir í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands og ég hlýt að spyrja hvort þessar athugasemdir hafi verið vegnar og metnar til að geta komið til móts við athugasemdir frá þeim aðilum sem hafa hvað mesta þekkingu á þessu starfi.

Að öðru leyti geri ég ekki aðrar athugasemdir en ég hef reifað hér (Forseti hringir.) hvað varðar námskeiðin og fyrirkomulag þeirra.