136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

420. mál
[18:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um málið. Ég vil fyrst og fremst undirstrika það að umhverfisnefnd flytur þetta mál en ekki ríkisstjórnin eða ég fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Ég vil þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir þá yfirlýsingu sem hún gaf varðandi stuðning við málið eftir að hafa kynnt sér umsagnir, en það er sama niðurstaða og flokksbræður hennar komust að eftir vinnu í nefndinni.

Þrír fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd skrifa undir álit nefndarinnar og ekki með fyrirvara þannig að ég sé ekki betur en að nefndin hafi komist að sameiginlegri niðurstöðu um að þessa bragarbót þurfi að gera, að færa markaðseftirlit með rafföngum yfir til Brunamálastofnunar sé það varanlega tengt mannvirkjum.

Varðandi hugmynd Samorku um að orðalagið orki tvímælis er ég sammála þeirri niðurstöðu sem Samorka kemst að um að þar sem vonandi er skammur tími þar til stóra frumvarpið um mannvirki og skipulag fer í gegnum þingið getum við gefið okkur tóm til að meta þetta orðalag á nýjan leik þegar það fer í gegn. Eins og hv. þm. Kjartan Ólafsson gat um hefur málið verið unnið frá 2002 og ég er fimmti umhverfisráðherrann sem kem að því.

Mikil sátt er um breytinguna. Mælt er fyrir henni í stóru lagabálkunum í skipulagsfrumvarpinu og mannvirkjafrumvarpinu. En þeir sem starfa að þessu eftirliti núna eru í sjálfu sér komnir „pro forma“ undan Neytendastofu nú þegar. Þannig að þessir starfsmenn hafa verið í þessum yfirfærslufasa allt of lengi og það varð að ráði milli umhverfisráðuneytis og viðskiptaráðuneytis að þessi breyting yrði í raun og veru að ganga í gegn, jafnvel þó að frumvörpin tvö færu ekki lengra á þessu þingi.

Nú er öllum þingmönnum hér kunnugt um þær sérstöku aðstæður sem við búum við og báðir þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað, Kjartan Ólafsson og Arnbjörg Sveinsdóttir, hafa lagt áherslu á að einungis forgangsmál ríkisstjórnarinnar fari í gegnum þingið. Ég hef hins vegar reynt að pressa á að fá skipulags- og mannvirkjalögin í gegn hjá ríkisstjórninni. En ríkisstjórnin hefur verið einhuga um það, og sammála stjórnarandstöðunni, að mál af þessu tagi verði að bíða á þessu þingi og þar sem stuttur tími er fram að kosningum sé ekki forsvaranlegt að setja þessi stóru mál hér í gegn.

Vera kann að svo beri svo við að hv. þingmenn séu mér ósammála eða ósammála ríkisstjórninni. Ég hefði gjarnan viljað koma skipulagslögunum og mannvirkjalögunum í gegn sem allra fyrst. Mér hefur fundist taka ótæpilega langan tíma að klára að vinna þau og koma þeim alla leið í höfn.

Búið var að vinna þessi mál mjög vel á síðasta þingi, eins og hv. þm. Kjartani Ólafssyni er mjög vel kunnugt, en þá sátum við tvö saman í umhverfisnefndinni. Það sem út af stóð á þeim tíma var fyrst og fremst ákvæðið um landsskipulagið og voru deilur um það í umhverfisnefndinni. Eftir að þingi lauk síðastliðið vor var haldið áfram að vinna í því máli og það endaði svo að samband sveitarfélaga og skipulagsyfirvöld komu með málamiðlunartillögu sem nú er búið að formúlera inn í nýtt frumvarp. Sömuleiðis hafa allar breytingartillögur frá umhverfisnefnd frá síðasta vetri verið settar inn í nýja frumvarpið. Þannig að ég tel að það frumvarp, sem nú liggur fyrir og er tilbúið og liggur inni í þingflokkum ríkisstjórnarinnar, hafi náð þeim málamiðlunum sem mögulegar eru í báðum þessum stóru málum.

Svo vil ég segja að í ljósi þeirra aðstæðna sem við störfum við núna hefur ríkisstjórnin óskað eftir því að málið verði látið bíða í þingflokkum stjórnarliða þar til öll forgangsmál ríkisstjórnarinnar eru komin í gegn. Nú sýnist mér að mjög sé pressað á forgangsmálin og ég verði þar af leiðandi að lúta í lægra haldi hvað þetta varðar og sætta mig við að þessi mál komist ekki í gegn á þessu þingi.

Ef ég fæ umboð til að gegna áfram embætti umhverfisráðherra mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að koma þessum málum alla leið í höfn. Því það er alveg gríðarlega mikilvægt að gera þær úrbætur í skipulagsmálum og mannvirkjamálum sem þau mæla fyrir.

Að síðustu vil ég segja, hæstv. forseti, um þá umræðu sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hóf hér um rafmengun að þá ætti hv. þingmanni að vera vel kunnugt um sjónarmið mín í þeim efnum því við höfum staðið saman að þingmálaflutningi undir forustu hv. fyrrverandi þingmanns Drífu Hjartardóttur og lögðum fram þingsályktunartillögu um aðgerðir gegn rafsegulmengun nokkur ár í röð. Þannig að ég tek undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður ræddi hér og tel að það hafi opnast fyrir meiri skilning á þessum málum og alvarleika rafmengunar og rafsegulmengunar ýmiss konar en kannski á þeim árum þegar við hófum að flytja þetta mál í félagi. Þannig að ég held að talsvert hafi þokast í þeim efnum.

Til marks um það get ég nefnt að nýbúið er að láta taka út húsnæði umhverfisráðuneytisins með tilliti til rafmengunar og það kom á daginn að það er ekki alveg í lagi þar og úrbætur verða gerðar. Ég held því að barátta okkar, þótt við höfum ekki komið þingsályktunartillögunni í gegn á sínum tíma, hafi skilað talsverðum árangri.

Ég heiti síðan hv. þingmanni því að ég held áfram að vakta mál af því tagi og er hjartanlega sammála þingmanninum um að verulegra úrbóta er þörf í þessum efnum.