136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. iðnaðarnefnd um frumvarp til laga um visthönnun vöru sem notar orku. Nefndin fékk til sín gesti á fund auk þess sem hún hefur farið yfir umsagnir sem nefndinni hafa borist um málið.

Frumvarpinu er ætlað að stuðla að þróun og notkun orkunýtinna vara með það að markmiði að tryggja visthönnun vöru með minni orkunotkun og draga úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið Þá er frumvarpinu ætlað að tryggja frjálst flæði slíkra vara um EES-svæðið. Því er ætlað að taka til hvers konar vöru sem notar orku að undanskildum farartækjum og tækjum sem þegar hafa verið tekin til notkunar, markaðssett eða verið flutt inn við gildistöku laga samkvæmt frumvarpinu.

Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/32/EB, um vistvæna vöruþróun. Við samningu frumvarpsins voru höfð til hliðsjónar lög nr. 51/2000, um orkunýtnikröfur, lög nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., auk danskra og sænskra laga um visthönnun vöru sem notar orku. Markmiðið er að draga úr raforkunotkun innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Frumvarpið felur ekki í sér efnisreglur um orkunýtnikröfur og umhverfisálag heldur er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að setja reglugerðir um orkunýtni einstakra vöruflokka sem byggjast á áðurnefndri Evróputilskipun. Lögin skapa svo grunninn að þessu fyrirkomulagi.

Með frumvarpinu er lagt til að eftirlit með því að vörur uppfylli kröfur laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra verði falið Neytendastofu samkvæmt þeim heimildum sem henni eru veittar með lögum um öryggi og opinbera markaðsgæslu. Samkvæmt þeim lögum fara Neytendastofa og viðeigandi eftirlitsstjórnvöld með opinbera markaðsgæslu og taka stjórnvaldsákvarðanir í samræmi við ákvæði laganna. Einnig skulu þau hafa eftirlit með því að vörur á markaði hverju sinni uppfylli settar reglur um öryggi. Við markaðseftirlitið er heimilt að fela faggiltri skoðunarstofu að annast skoðun þeirra vörutegunda sem hún hefur faggildingu fyrir og annast auk þess skipulega öflun upplýsinga um vörur á markaði sem taldar eru hættulegar.

Á fundum sínum ræddi nefndin fjölmörg atriði, m.a. um gildissvið og inntak laganna, um hugtök og hugtakanotkun, um samræmismat og eftirlit opinberra aðila með CE-samræmismerkingum áður en vara er sett á markað.

Fyrir nefndinni kom fram athugasemd við það að í frumvarpinu var notað hugtakið „háð orkuílagi“. Var það mat nefndarmanna að það væri óþekkt í hugtakanotkun hér á landi. Við viljum stuðla að skýrri lagasetningu, skiljanlegri lagasetningu sem er aðgengileg þeim sem hana vilja nota og þess vegna teljum við að svona orðalag beri að einfalda og hafa skýrara og því tökum við undir þessa athugasemd og leggjum til að í stað þessa hugtaks komi „nýtir orku“ þegar fjallað er um vöru sem notar orku.

Þá var því einnig hreyft fyrir nefndinni að orðin „eða vara til framleiðslu, flutnings og mælingar á slíkri orku“ í a-lið 3. gr. feli í sér að frumvarpið nái einnig til búnaðar sem vinni orku eða er notaður til framleiðslu orku. Vegna athugasemda og umsagna sem nefndin fékk og þar sem mönnum kom ekki saman um hvað þetta merkti áréttar hún að frumvarpið er um visthönnun vöru sem notar orku en tekur ekki til búnaðar til raforkuflutnings eða til raforkuframleiðslu. Leggur nefndin því til að sá liður í setningunni verði felldur brott úr ákvæðinu til þess að skýra málið.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að Neytendastofu einni væri falið eftirlit og dagleg stjórnsýsla eins og fjallað er um í 10. gr. frumvarpsins. Nefndin bendir á að Neytendastofa fer með almenna markaðsgæslu og hefur eftirlit með því hvort tilteknar vörur uppfylli skilyrði og beri CE-samræmismerkingar. Ef vara sem notar orku ber ekki slíka merkingu tekur Neytendastofa vöruna til skoðunar. Komi upp tilvik þar sem markaðsgæslan leiðir í ljós hugsanlegt brot á lögunum getur Neytendastofa leitað álits hjá öðrum aðila sem hefur sérþekkingu á viðkomandi vöru. Nefndin áréttar að þessi þáttur frumvarpsins var sendur til ráðgjafarnefndar forsætisráðuneytis um opinberar eftirlitsreglur og gerði nefndin engar athugasemdir. Nefndin telur því að þessari athugasemd hafi verið svarað og það er þá skýrt hér í nefndarálitinu að hún telur að Neytendastofa eigi að leita sér sérfræðiaðstoðar og muni gera það ef með þarf. Þá komu fram athugasemdir um að hugtakið „tekin til notkunar“ sé óljóst og ekki nægilega skilgreint í frumvarpinu. Nefndin leggur áherslu á að með frumvarpinu er verið að setja nýjar grunnkröfur sem vörur sem nota orku skulu uppfylla svo að þær fái CE-samræmismerkingar. Eins og kemur fram í inngangi greinargerðar með frumvarpinu er því ekki ætlað að taka til vöru sem er búið að framleiða, flytja inn, markaðssetja og taka til notkunar fyrir gildistöku laganna. Skýrt er í nefndarálitinu og greinargerðinni að þetta er sá skilningur sem nefndin og þeir sem sömdu frumvarpið leggja í þau orð í lagatextanum.

Nefndin telur nauðsynlegt að frumvarpið verði að lögum til að tryggja samræmda löggjöf innan EES og til að koma í veg fyrir að í framtíðinni verði hingað fluttar inn vörur sem uppfylla ekki kröfur annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er einnig neytendamál og mikilvægt fyrir neytendur til að þeir geti verið upplýstir að vörur séu rétt og vel merktar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

A-liður 3. gr. orðist svo: Vara sem notar orku: Vara sem, þegar henni hefur verið komið á markað og/eða hún tekin í notkun, nýtir orku (rafmagn, jarðefnaeldsneyti eða endurnýjanlega orkugjafa) til að virka sem skyldi eða vara til flutnings og mælingar á slíkri orku, þar með taldir hlutir, sem nýta orku og ætlunin er að setja í vöru sem notar orku og fellur undir lög þessi, sem eru settir á markað og/eða teknir í notkun sem stakir hlutir fyrir notendur og unnt er að meta sérstaklega að því er varðar vistvænleika.

Virðulegi forseti. Við teljum að með þessu höfum við náð að skýra þau atriði sem voru helst gagnrýnd í umsögnunum fyrir að vera óskýr og óljós, bæði með breytingartillögunni og ekki síður með þeim skýringum sem fylgja í nefndarálitinu.