136. löggjafarþing — 112. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[00:21]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er afskaplega hreykin yfir því að standa hér og mega vera framsögumaður fyrir þessu góða máli. Enda þótt langt sé liðið fram á kvöld og komið fram á nótt vona ég svo sannarlega að við munum eiga hér góð skoðanaskipti og umræður um þetta mikilvæga mál og leiða það hér til lykta í 2. umr. og gera það að lögum sem fyrst.

Ég segi hreykin, ekki vegna þess að ég hafi komið sérstaklega að þessu máli heldur vegna þess að um er að ræða mál sem hefur verið flutt einum átta sinnum á 12 til 13 ára bili og þetta er þingmannamál. Ég vil leyfa mér að fullyrða að afgreiðsla þessa máls út úr hv. viðskiptanefnd, en hún er einróma eins og reyndar öll önnur mál sem hér hafa verið á dagskrá og til umræðu í dag, marki ákveðin tímamót í störfum þingsins.

Mætti ég fá hljóð, herra forseti.

Hér er að mínu viti um að ræða þingmál sem skiptir sköpum í þingsögunni. Þetta er langstærsta svokallaða þingmannafrumvarpið, þingmannamálið, sem ég hygg að hafi verið afgreitt hér nái það afgreiðslu sem ég vona svo sannarlega. Ég vil leyfa mér, eins og ég gerði reyndar við 1. umr., að hrósa flutningsmönnum þessa máls um ábyrgðarmenn fyrir þá staðfestu sem þeir hafa sýnt í gegnum öll árin. Ég vil leyfa mér að telja flutningsmenn þessa frumvarps hér upp en það eru hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon, Pétur H. Blöndal, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðni Ágústsson og Ágúst Ólafur Ágústsson.

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem er séríslenskt í raun. Það ábyrgðarmannakerfi sem hér hefur vaxið og viðgengist um árabil á sér engan sinn líka í nálægum löndum. Markmið frumvarpsins sem hér liggur fyrir er að draga úr vægi persónulegra ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar miðist við greiðslugetu manna, greiðslugetu lántakandans sjálfs, og hans eigin tryggingar en ekki persónulegar ábyrgðir einhverra annarra. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlöggjöf um ábyrgðarmenn en svo undarlegt sem það má virðast þá er ekki í lögum að finna neinar reglur um ábyrgðir og hvernig skuli staðið að slíkri samningsgerð.

Árið 1998 var gert samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga og viðskiptaráðuneytið hafði aðkomu að því samkomulagi við Neytendasamtökin og Samtök fjármálafyrirtækja. En sá galli er á gjöf Njarðar að ekki eru öll aðildarfélög Samtaka fjármálafyrirtækja aðilar að því samkomulagi.

Ég mæli hér, herra forseti, fyrir nefndaráliti hv. viðskiptanefndar um þetta frumvarp til laga og nefndarálitið er að finna á þskj. 785. Í upphafi þess kemur fram að einir þrettán gestir hafi komið fyrir nefndina og nefndinni bárust fjórtán umsagnir um málið. Í þeim mörgum kom fram að samþykkt frumvarpsins hefði víðtæk áhrif á fjármálamarkaðinn íslenska. Til hins betra, sögðu sumir. Til hins verra, sögðu aðrir. Þó svo að menn hafi ekki endilega verið sammála í því mati sínu þá mælti í rauninni enginn því í mót að sett yrði löggjöf um ábyrgðir. Ég vil leyfa mér að vitna til umsagna Samtaka fjármálafyrirtækja og Seðlabanka Íslands og fleiri sem leggja því lið.

Nefndin hlustaði grannt á alla gesti sem fyrir hana komu og fór vandlega yfir umsagnir. Ég vil leyfa mér að segja að þær breytingartillögur sem hér fylgja, á þskj. 786, séu til þess að skerpa enn frekar á yfirlýstum tilgangi frumvarpsins og skýra réttarstöðu ábyrgðarmanna, lántaka og lánveitenda.

Eins og ég sagði áðan þá hefur það frá upphafi verið markmið flutningsmanna frumvarpsins að draga úr vægi ábyrgða. Við heyrðum að samþykkt þessa frumvarps gæti haft það í för með sér að ábyrgðarkerfinu yrði kollvarpað, og ég verð að segja það, herra forseti, að frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu um klukkan tvö í dag er í rauninni dánarvottorð yfir ábyrgðarmannakerfinu. Því að staðreyndin er sú að einn aðili hefur þegar greitt atkvæði um frumvarpið og það er Kaupþing sem í dag tilkynnti að bankinn hefði aflagt ábyrgðarmannakerfið. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að lesa frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu fyrr í dag og var svohljóðandi:

„Nýja Kaupþing hefur ákveðið að leggja niður ábyrgðarmannakerfið. Viðskiptavinir fá því framvegis aðeins lánað í takt við eigin greiðslugetu.

Í tilkynningu frá Kaupþingi kemur fram að þetta auðveldi fólki að takast á við fjármálakreppuna og dragi úr hættu á að fjárhagserfiðleikar smiti út frá sér. Reynsla bankans af ábyrgðarmannakerfinu sé ekki góð. Innheimta hafi gengið illa og skapað bankanum óvild. Breytingin tekur þegar gildi en er ekki afturvirk.“

Hér er að mínu viti um nokkur tímamót að ræða og vil ég leyfa mér að tengja þessa ákvörðun bankans vitneskjunni um það að búið er að afgreiða þetta langþráða mál í fullri sátt út úr hv. viðskiptanefnd og að vonir standi til þess að þingið nái að afgreiða það fyrir lok þings í vor.

Ég vil, herra forseti, hlaupa örstutt á ítarlegu nefndaráliti og gera stuttlega grein fyrir þeim breytingum sem nefndin leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Í I. kafla frumvarpsins er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Þar er gert ráð fyrir því að frumvarpið taki til stofnana og fyrirtækja sem stunda útlánastarfsemi. Í breytingartillögu við 2. gr. eru taldar upp þær stofnanir sem um ræðir en þar segir, með leyfi forseta:

„Stofnanir og fyrirtæki geta m.a. verið viðskiptabankar, sparisjóðir, greiðslukortafyrirtæki, lánafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, vátryggingafélög, lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður og Lánasjóður íslenskra námsmanna.“

Í þessari sömu breytingartillögu eða efnisgrein er fjallað um það við hvað sé átt með ábyrgðarmanni. Þar segir, með leyfi forseta, í breytingartillögu við 2. gr:

„Með ábyrgðarmanni er átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.“

Í þessum síðustu orðum er í rauninni fólgin áherslubreytingin, þ.e. að ákvæði frumvarpsins eiga ekki við um tilvik þegar einstaklingur tekst á hendur ábyrgð í eigin þágu.

Í þessari sömu breytingartillögu er gerð tillaga um það að viðskiptaráðherra verði heimilt með reglugerð að undanskilja tiltekin form ábyrgða gildissviði laganna og má þar nefna sem dæmi þegar ábyrgðarmaður hefur gengist í ábyrgð fyrir lánveitingu sem síðan er ráðstafað til kaupa á hans eigin íbúðarhúsnæði — afsakið, herra forseti, hér mislas ég, hér er ég að vísa til þess að þetta taki ekki til ábyrgðar í eigin þágu. Hvað varðar reglugerðarheimildina þá er vísað til þess að til greina komi að ráðherra beiti heimild sinni hvað varðar tilgreindar ábyrgðir sem til stofnast við framsal kröfuréttinda eða á grundvelli annarra málefnalegra ástæðna.

Í II. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga og þar er gengið út frá því að lánveitanda beri að tryggja tiltekna formfestu við samningsgerðina og brestur í þeim efnum geti orðið til þess að ábyrgðarmaður verði laus úr ábyrgð sinni.

Í ljósi þess, herra forseti, að raunhæf viðmið skortir við framkvæmd greiðslumats leggur nefndin til að við 1. mgr. 4. gr. verði bætt heimild til handa viðskiptaráðherra til að setja reglugerð þar að lútandi. Þar verði m.a. heimilt að kveða á um að skylda til greiðslumats geti verið undanþæg nái ábyrgðarsamningur ekki tilgreindri lágmarksfjárhæð en þessi tillaga kom fram í einni umsögn sem nefndinni barst.

Ég vil víkja, herra forseti, að III. kafla frumvarpsins sem tekur til réttarsambands lánveitanda og ábyrgðarmanns en nefndin gerir nokkrar breytingartillögur við 7. gr. frumvarpsins. Þar er um lagfæringar að ræða í takt við ábendingar sem nefndinni bárust og efnislega er þó ein ný málsgrein viðbót sem verði 2. mgr., svohljóðandi:

„Ábyrgðarmaður skal vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður.“

Hér er vísað til þess að ef lánveitandi ekki uppfyllir þær kröfur sem 7. gr. laganna gerir til hans um mat á greiðslugetu viðkomandi og tilkynningarskyldu til ábyrgðarmanns, um breytta stöðu lántaka, þannig að um vanrækslu sé að ræða, verði ábyrgðarmaður skaðlaus.

Herra forseti. 8. gr. frumvarpsins fékk hvað ítarlegasta umfjöllun í nefndinni en í henni er kveðið á um að lánveitandi geti ekki gert aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans og að lánveitandi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns.

Hér er um allverulega breytingu að ræða og var talsvert fjallað um þýðingu þessarar greinar í umfjöllun nefndarinnar. Því var haldið fram að þessi grein mundi girða fyrir notkun ábyrgða og af því tilefni vill nefndin ítreka, og kemur fram hér í nefndaráliti, að umrætt ákvæði nær aðeins til persónulegrar ábyrgðar en á ekki við um það þegar ábyrgðarmaður veitir veðleyfi í fasteign sinni. Enn fremur miðast ákvæðið við það að sú fasteign þar sem ábyrgðarmaður og fjölskylda hans heldur heimili skuli undanþegin aðför.

Nefndin telur að eigi það markmið að undanþiggja heimili ábyrgðarmanns aðför að nást verði jafnframt að takmarka möguleika lánveitanda til þess að krefjast gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns. Gjaldþrotaskiptum verður því ekki viðkomið á búi ábyrgðarmanns á grundvelli fjárnáms sem er árangurslaust sökum þess að eignin er undanþegin aðför enda ekki um eignaleysi að ræða hjá gerðarþola, þ.e. ábyrgðarmanni, í slíkum tilvikum. Þess meðalhófs er gætt að komi til gjaldþrotaskipta ábyrgðarmanns af öðrum ástæðum getur lánveitandi að sjálfsögðu lýst ábyrgðarkröfu í búið.

Herra forseti. Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um ýmsar takmarkanir á ábyrgð og í 3. mgr. 9. gr. er fjallað um áhrif skuldaeftirgjafar á stöðu ábyrgðarmanns. Það er gert í ljósi þess að fyrir allsherjarnefnd er nú til umfjöllunar mál um greiðsluaðlögun. Því er hér sú breyting lögð til sem gerir ráð fyrir að þessir gerningar, þ.e. greiðsluaðlögun, eftirgjöf skuldar eða hluta skuldar hafi sömu áhrif og nauðasamningur eða önnur eftirgjöf. Með leyfi forseta þá segir af þessu tilefni í 5. breytingartillögu á þskj. 786, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.“

Herra forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á 12. gr. frumvarpsins en nokkuð var fjallað um það í umsögnum og í umfjöllun nefndarinnar að þar væri um afturvirkt ákvæði að ræða. Nefndin leggur til að þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að stofnun, efni og formi ábyrgðarsamninga gildi ekki um ábyrgðarsamninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna, og það sama eigi við um þau ákvæði frumvarpsins sem takmarka aðför og gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns. Breytingin er lögð til að gættum sjónarmiðum um afturvirkni laga og friðhelgi einkaréttar, þ.e. þessi ákvæði, herra forseti, eru ekki afturvirk. En með hliðsjón af því að ábyrgðarsamningar eru oft gerðir til langs tíma telur nefndin eðlilegt að önnur ákvæði frumvarpsins nái til samninga sem þegar hafa verið gerðir enda séu þau í anda framkvæmdar sem viðhöfð hefur verið á grundvelli samkomulags um ábyrgðir og íþyngi lánveitendum ekki um of.

Herra forseti. Í ákvæði til bráðabirgða leggur nefndin til að við bætist ákvæði þess efnis að heimilt verði að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. samningslaga og að teknu tilliti til þeirra atvika er leiddu til setningar neyðarlaganna í haust. Ákvæðið er svohljóðandi, með leyfi forseta. Nýtt ákvæði til bráðabirgða 8. breytingartillaga á þskj. 786.

„Heimilt er að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og að teknu tilliti til þeirra atvika er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.“

Lagagreinin veitir dómstólum m.a. heimild til þess að lýsa óskuldbindandi löggerninga sem í upphafi voru gildir vegna atvika sem upp komu eftir gerð þeirra. Nefndin telur að með upptöku umrædds ákvæðis til bráðabirgða felist árétting á að við mat á beitingu heimildarinnar verði í tilviki ábyrgðarmanna litið til þeirra aðstæðna á fjármálamarkaði sem voru undanfari neyðarlaganna.

Nefndin bendir á nýlega bráðabirgðagreiningu Seðlabanka Íslands frá 11. mars 2009 um áhrif yfirstandandi fjármálakreppu á efnahag heimilanna en hún gefur tilefni til þess að ætla að svigrúm ábyrgðarmanna til að standa undir skuldbindingum lántaka sé verulega takmarkað. Er sýnt að mati nefndarinnar að staða margra heimila er viðkvæm vegna hækkunar á greiðslubyrði og lækkandi eignaverðs auk þess sem atvinnuleysi hefur aukist mjög.

Herra forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali, nr. 786.

Birgir Ármannsson, Höskuldur Þórhallsson og Árni M. Mathiesen skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Birkir Jón Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Gunnar Svavarsson, Birgir Ármannsson, Lúðvík Bergvinsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Árni M. Mathiesen og Jón Magnússon.