136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

fæðingar í Vestmannaeyjum.

441. mál
[14:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þeirri hugmynd hefur vissulega verið teflt fram af hálfu bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum að Vestmannaeyjabær taki yfir heilsugæsluna, við höfum rætt það. Það var gert í öðru samhengi jafnframt að setja þessa hugmynd fram. Það var í bland í tengslum við mótmæli bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum gegn því að Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja yrði sameinuð Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Færð hafa verið mjög góð rök fyrir því að það sé ekki hyggileg leið enda ekki samkvæmt óskum Vestmannaeyinga og var ákveðið að falla frá þeim fyrirætlunum.

Varðandi yfirtöku á heilsugæslunni erum við sammála um að láta hana bíða og skoða nánar því að þetta snýst allt um peninga. Mun aukið fjármagn fylgja slíkri yfirtöku? Það er það sem ég hef ákveðnar efasemdir um á þessari stundu. Um þetta eru einfaldlega viðræður og ekkert nema gott um það að segja.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Björk Guðjónsdóttur, sem fór lofsamlegum orðum um starfsfólk á Suðurnesjum og heilbrigðisstofnunum annars staðar, sem og orð hv. þm. Árna Johnsens, sem gerði það líka. Hann benti réttilega á að slíkur sparnaður og niðurskurður má ekki bitna á starfsfólkinu þegar til lengri tíma er litið. Ég vil líka taka undir með honum þegar hann segir: Það er aldrei hægt að tala um fullkomið öryggi í flugi og samgöngum. Þar hlusta ég að sjálfsögðu á fólk sem hefur miklu meiri og aðra reynslu af þessu en ég. Þá er spurning hvernig þetta öryggi verði tryggt með öðrum hætti. Það er gert með því að treysta á heilbrigðisstarfsmenn í Vestmannaeyjum, dómgreind þeirra, og mæðraverndina en að sjálfsögðu er það (Forseti hringir.) síðan rétt, sem fram kemur hjá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur, að við getum aldrei séð fyrir allt sem kann að gerast þegar fæðingar eru annars vegar, það er alveg rétt. (Gripið fram í.) Ég held að ekki sé verið að tefla öryggi fólks í tvísýnu með þessum ákvörðunum og ber fullt traust til (Forseti hringir.) stjórnenda heilbrigðisþjónustunnar í Vestmannaeyjum.