136. löggjafarþing — 113. fundur,  25. mars 2009.

könnun á greiðsluaðlögun fasteignaveðlána.

400. mál
[15:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn snertir sama málaflokk og fyrirspurnin sem ég kom með áðan þó að hún sé til annars hæstv. ráðherra, þær snúa báðar að heimilunum í landinu. Það liggur fyrir og kom fram í góðum svörum hæstv. ráðherra að hér hefur ekki verið nein yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn og lánastefna banka og ríkisins hefur aukið vandann mikið. Menn geta ekki litið á öðruvísi á en þar beri stjórnvöld, og þá sérstaklega þeir sem fara með félags- og tryggingamálin, mikla ábyrgð. Ég held að þegar rifjaðar eru upp þær umræður sem verið hafa sé alveg ljóst að menn höfðu enga yfirsýn yfir þessi mál þar sem hún átti að vera. Menn gerðu í rauninni þvert á það sem þeir hefðu átt að gera í þessum málum.

Það þýðir lítið að dvelja við það. Við erum í þessari stöðu núna og vitum að það er ákveðinn hópur fólks sem er í vanda. Það er afskaplega mikilvægt að við bregðumst við honum eins hratt og mögulegt er til að koma í veg fyrir gjaldþrot þessara einstaklinga og í veg fyrir verðfall á fasteignum. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann hafi látið látið kanna hvaða leiðir eru færar við greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, svo sem með frystingu lána að hluta eða fullu og skiptingu lána í eingreiðslu og hefðbundin fasteignaveðlán.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef — og þá vísa ég í skýrsluúttekt Seðlabanka Íslands — virðist þetta sem betur fer eiga við tiltölulega lítinn hóp fólks sem er í miklum vanda, eftir því sem ég best veit, þó að upplýsingarnar séu reyndar frá síðustu áramótum. Þess vegna er verkefnið afmarkað og ættum við að taka sérstaklega á því. Ég hef velt upp hugmyndum sem miða að því að taka ákveðinn hluta lánsins, það sem er umfram fasteignamatið, og setja það í svokallað eingreiðslulán og geyma það fram yfir kreppuna, ef þannig má að orði komast. Mér er í rauninni nákvæmlega sama hvaðan góð hugmynd kemur. Aðalatriðið er að við tökum á þessum málum en eins og við þekkjum hefur þessi ríkisstjórn, sem ætlaði sér að ganga í verkin, látið það bíða, og við sem störfum í þinginu sjáum ekki fram á miklar aðgerðir þessa dagana.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann muni láta kanna þessar leiðir og hvort einhvers nýs sé að vænta hvað þetta varðar því að það er mikilvægt fyrir heimilin í landinu og nauðsynlegt að bregðast við því.