136. löggjafarþing — 115. fundur,  25. mars 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[16:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er ákaflega hjartnæm stund. Hér hafa fulltrúar, ég held flestra ef ekki allra þingflokka komið upp og lokið miklu lofsorði á þetta mál og þá kviknar bara ein spurning: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það þurfti níu tilraunir til að koma þessu þarfa réttlætismáli í gegn, sem allir lofa nú hér mjög?

Kannski er það tímanna tákn að réttlætið nái fram að ganga í ríkari mæli en fyrr og við skulum vona að svo sé. Einhver klakabönd hafa greinilega brostið af og farnar þær hindranir sem áður hafa væntanlega verið í vegi þess að þetta ágæta frumvarp næði fram að ganga, en ég þykist muna að hafa verið einhvern tíma meðflutningsmaður að því. Þetta veit vonandi á gott.