136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[18:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum heyrt það nokkrum sinnum áður að fall Lehman Brothers í Bandaríkjunum sé ekki Sjálfstæðisflokknum á Íslandi að kenna. Ég var hér einungis að lýsa minni skoðun og ég held að í þeirri stöðu sem við erum í megi menn ekki vera of viðkvæmir fyrir því.

Ég ítrekaði aðeins að við erum hér að bregðast við verulegum vanda sem blasir við. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa á undanförnum dögum kallað hátt og í hljóði eftir því að afgreidd verði út úr þinginu þau mál er varða heimilin í landinu hvað mestu. Þeir hafa auðvitað vitað með vinnu sinni í nefndum þingsins að víða er unnið að þessum málum. Ég vakti athygli á því að hér er eitt af mörgum málum, vonandi, til lykta leitt og ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri mikilvægt að halda þeim málum og þeirri vinnu áfram, í þeirri stöðu sem við erum í, til að bregðast við þeim skuldaklafa sem á þjóðinni hvílir. Það er mín skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn og sú stefna sem hann hefur rekið síðustu 18 árin beri þar allmikla ábyrgð.