136. löggjafarþing — 116. fundur,  25. mars 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:25]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir innlegg hans hér. Því þetta eru auðvitað erfiðar spurningar sem þarf að svara þegar erfiðir tímar eru í efnahagsástandi og kemur að úthlutun fjármuna. Erfitt er að taka ákvarðanir um að halda áfram svo dæmi sé tekið með þetta tónlistar- og ráðstefnuhús.

En út frá því sem hann sagði um börnin okkar og barnabörnin og komandi kynslóðir og þetta hús er gaman að líta til sögunnar og rifja upp annað hús, Þjóðleikhúsið, sem var mjög umdeilt á sínum tíma. Enda voru tímarnir kannski ekki beysnir heldur þegar það var byggt. Mikil andmæli voru við alla byggingu þess. Nú búum við auðvitað að því að eiga Þjóðleikhúsið. Þannig að þótt þessi framkvæmd sé dýr þá tek ég undir með hv. þingmanni að auðvitað verður að leita hagkvæmustu leiða til að klára húsið og unnið er að því hvernig hægt er að spara í útfærslum og hvernig verði hægt að nýta húsið og finna því virkni og tryggja að þar verði dagleg starfsemi og þetta verði lifandi tónlistarhús fyrir allan almenning í landinu.

En ég vil þakka hv. þingmanni fyrir orð hans í þessu því ég held að þau undirstriki bæði mikilvægi menningar og nauðsyn þess að við forgangsröðum fjármunum á erfiðum tímum.