136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

lyfjalög.

445. mál
[00:01]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. „Stétt með stétt“ eru einhver mestu öfugmæli í Íslandssögunni, að horfa upp á sjálfstæðismenn halda því fram að það sé stétt með stétt. Við skulum fara í grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, annars vegar sjávarútveg með kvótakerfi og leiguliða, hins vegar landbúnað með kvótakerfi og leiguliða. Þetta er stétt með stétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn túlkar það. Þeir kenna sig við markaðslögmál og segjast vilja frelsi markaðarins. Hvar er það þegar kemur að sölu á fiski eða sölu á landbúnaðarafurðum? Er þar eitthvert frelsi eða eru markaðslögmálin látin ráða þar? Hvernig er með leigu á veiðiheimildum sem er leyfileg? Þar eru það aðalhagsmunaaðilarnir, sægreifarnir, sem hafa hana á sinni hendi og geta nánast ákveðið hvaða verð er í gangi. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki kennt sig við þetta og haldið því fram að það sé stétt með stétt. Það er rangt af þeim að gera það því að raunveruleikinn er ekki þannig. Frelsi til athafna og gjörða í grunnatvinnugreinum þjóðarinnar, bæði sjávarútvegi og landbúnaði, er ekki til staðar. Það er sorglegt þegar þingmenn reyna að halda svona hlutum fram og segja fólki raunverulega að svart sé hvítt. Það er með ólíkindum hvernig menn bera hlutina fram og ég segi bara enn og aftur af þessu tilefni að það er langur vegur frá því að sjálfstæðismenn geti sagt þetta, stétt með stétt, það er algjörlega úti á túni.

Fjórflokkurinn opinberar sig með þeim hætti hérna þessa dagana, hann er (Forseti hringir.) ekki lýðræðis- og mannréttindasinnaður.