136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[00:54]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki lagaðist það við þetta svar. Hv. þingmaður ákvað að flytja málið og málið var lagt fram í Alþingi. Nei, svo er haldinn fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þá fer hann að lýsa einhverjum allt öðrum skoðunum, og lýsir einhverjum allt öðrum skoðunum hér en komu fram í frumvarpinu sem hann sjálfur flytur. Hann flytur þetta mál og málið var komið inn í Alþingi. Það var búið að leggja það fram í þinginu þegar kom bara U-beygja hjá hv. þingmanni og hann ákvað að þetta væri gjörsamlega ónýtt frumvarp.

Ég hlýt að spyrja þingmanninn: Vissi hann ekkert um innihald þess frumvarps sem hann flutti? Vissi hann ekkert hvaða mál hann var að styðja? Hvar var vinna hv. þingmanns þegar kom að því að leggja þetta frumvarp fram? Þingmaðurinn ákvað það, það var hans ákvörðun og hann bar fulla ábyrgð á því að nefndin ákvað að flytja þetta mál. Honum tókst ekki að standa undir þeirri ábyrgð. Það er kannski eins og ýmislegt sem sýnir sig kannski í störfum Frjálslynda flokksins hvers lags flokkur það er að þingmaðurinn gat ekki staðið við ákvörðun sína í eina viku.