136. löggjafarþing — 116. fundur,  26. mars 2009.

stjórn fiskveiða.

429. mál
[01:52]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur fagna ég því að hún skuli vilja skoða málið betur, það er auðvitað mjög gott. Ég minni hana á að þessi ferðaþjónustugrein sem þarf að leigja sér veiðiheimildir upp á 250 tonn — ef við gefum okkur að það verði svipuð veiði og svipað umfang á ferðaþjónustunni á þessu ári og því síðasta — er leiguverðið miðað við gangverð á kvóta í dag upp á 37,5 milljónir. Þessi fyrirtæki, kannski tvö fyrir vestan sem mest eru í því að leigja veiðiheimildir og gerðu það á síðasta sumri, munar um minna. Þetta er þeim íþyngjandi líka. Þegar þau voru búin að fá pantanir og það var búið að bóka hjá þeim skip þurftu þau að hafa þennan kvóta því að þau máttu ekki fara kvótalaus á sjó. Þessi ferðaþjónustufyrirtæki spenntu verðið upp umfram það sem kannski eðlilegt var á kostnað atvinnu sjómanna, á kostnað þeirra sem eru raunverulegir trillukarlar og þurfa að leigja til sín veiðiheimildir.

Það er sorglegt að vita til þess að hér eru nánast bara fjórir þingmenn í sal til að ræða þessi mál. Það er ótrúlegt. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir hefur verið með útúrsnúninga um stuðning við þetta frumvarp og tekur ekkert tillit til fyrirvara, tekur ekki tillit til óska minna um að frjálsar handfæraveiðar yrðu ræddar með. Hún hefur verið í þrasi og þvargi út af því að hana skortir rök. (Forseti hringir.)