136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum þakka fyrir að það sé stöðug stígandi í jafnréttisbaráttunni en árangur sem náðst hefur í jafnréttismálum hér á landi og annars staðar hefur svo sannarlega ekki náðst vegna þess að menn hafi bara hallað sér aftur í sætinu og haldið að þetta kæmi af sjálfu sér. Það sem ég ítreka og tel þess vegna brýnt er að með samþykkt þessarar tillögu fá Jafnréttisstofa og ráðherra umboð til þess að hrinda af stað átaki sem væntanlega vekur fólk og flokka til umhugsunar um það í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að konur og karlar þurfi að vera jafnmörg á framboðslistum stjórnmálaflokkanna og annarra sem bjóða fram, að við verðum áfram að beita okkur með þeim hætti í baráttunni.

Það gerðist ekkert í þessum málum á Íslandi fyrr en konur tóku sig saman og buðu fram Kvennalista, bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Það var ekki fyrr en þá að þunglamalegir gamlir stjórnmálaflokkar, sem hafði verið stýrt af körlum og ráðið af körlum árum og áratugum saman, tóku við sér, sáu sitt óvænna og ákváðu að leyfa konunum að vera með. Það var ekki vegna þess að þeir fyndu hjá sér sjálfir þá vitundarvakningu eða vöknuðu upp einn morguninn og hygðu að það væri góð hugmynd. Það var vegna þess að konur gripu til róttækra aðgerða og mynduðu þrýsting í samfélaginu og þannig varð sú þróun sem við höfum sem betur fer fylgst með hér á landi í rúmlega 30 ár, og tæplega 30 ár í framboðum til sveitarstjórna og Alþingis. Við skulum ekki gera lítið úr því að hvert eitt skref sem fengist hefur í jafnréttisbaráttunni hefur fengist fyrir baráttu kvenna fyrir réttindum sínum. Hvert eitt skref (Forseti hringir.) sem náðst hefur er hægt að taka til baka ef menn standa ekki vaktina.