136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

30. mál
[18:45]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Það er full ástæða til að fagna þeirri tillögu þó að vissulega hefði ég kosið að hún væri efnismeiri varðandi þær aðgerðir sem menn vilja hrinda af stað í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum og þá fyrst og fremst í næstu kosningum sem verða að ári.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er tafla sem sýnir þróun á hlut kvenna í sveitarstjórnum síðustu 60 árin eða þar um bil. Þar kemur fram að við höfum farið úr næstum því núlli og upp í 36% miðað við kosningarnar 2006. Það er vissulega árangur en við konur erum óþolinmóðar og viljum láta hlutina gerast hraðar. Það segir sig sjálft að konur eru helmingur landsmanna og helmingur kjósenda og við teljum þess vegna eðlilegt að hlutur kvenna í sveitarstjórnunum sé sem jafnastur því að bæði kynin þurfa að koma að sjónarmiðum sínum. Eins og hér hefur verið bent á sýna rannsóknir að þegar til stjórnmálaþátttöku kemur eru mismunandi áherslur sem kynin hafa og sá fjölbreytileiki þarf að sjást í sveitarstjórnunum og á Alþingi.

Þegar við veltum fyrir okkur aðgerðum hefur verið minnst á hugarfarsbreytingu og ég held að hún sé mjög nauðsynleg. En þá kemur hin stóra spurning sem ég ætla ekki einu sinni að reyna að svara til hlítar þótt ég ætli að gera smátilraun til þess: Hvernig breytum við hugarfari þjóðar? Hvernig breytum við hugarfari kjósenda? Hvernig breytum við hugarfari stjórnmálaflokka? Allt þetta kemur til skoðunar þegar kemur að því að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ég segi „stjórnmálaflokka“ af því að það eru þeir sem velja á listana með einum eða öðrum hætti og hér hafa prófkjörin verið nefnd. Þau hafa ekki, að minnsta kosti ekki með nægilega skilvirkum hætti, skilað konum góðum árangri þótt kannski séu vísbendingar um annað í þeim prófkjörum eða forvölum sem átt hafa sér stað fyrir þingkosningarnar í vor. Þar hafa verið skemmtilegar undantekningar. En engu að síður virðast prófkjörin sem meginstefna frekar vera hindrun fyrir konur en hvatning.

Ég segi „kjósendur“ því að það eru náttúrlega kjósendur, stuðningsmenn flokkanna, sem taka þátt í prófkjörunum fyrst og síðan eru það kjósendur sem kjósa listana. Þegar maður skoðar árangur flokka virðist ekki endilega skipta miklu máli þegar kemur að því að kjósa stjórnmálaflokk hvað sem hann heitir, hvernig samsetningin er á listanum. Þá er ég að tala um efstu sætin en ekki heildarlistann því að að mínu mati skiptir ekki máli þótt hægt sé að segja að helmingur frambjóðenda séu konur ef maður horfir á allan listann því að ef maður horfir á efstu sætin sem líkleg eru til að verða kosin inn eru hlutföllin kannski 20:80, öðru hvoru kyninu í vil og oftast karlmönnunum. En kjósendur virðast ekki velta því mikið fyrir sér þegar kemur að því að kjósa stjórnmálaflokka, hvort sem það er til sveitarstjórna eða þingsins, hvernig samsetningin er á listunum. Þá er spurningin þessi: Hvernig breytum við þessu hugarfari? Og önnur spurning: Skiptir þetta kjósendur engu máli? Það er kannski spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur. Finnst hinum almenna kjósanda það ekki skipta neinu máli hvort kynjahlutfallið er sem jafnast á listunum? Það sem ég sagði er ákveðin vísbending um að svo sé ekki. Ég hygg þó og held því fram að flestir kjósendur telji þetta mikilvægt en þeir telja það kannski ekki nægilega mikilvægt til að þeir kjósi frekar flokk A frekar en flokk B eftir því hvernig samsetningin er á listunum.

Minnst var á fjölmiðla og auðvitað skipta þeir miklu máli þegar kemur að hugarfarsbreytingu því að fjölmiðlar eru ákaflega skoðanamyndandi afl. Þá tel ég að það skipti ekki bara máli að talað sé bæði við karla og konur. Það á að vera svo sjálfsagt að það á ekki að þurfa að taka það fram. Viðhorfið sem kemur fram í fjölmiðlum og umræðum í fjölmiðlum skiptir líka máli. Þá vil ég víkja að því sem er aðalástæðan fyrir því að ég kem í pontu. Það sem fyrst og fremst skiptir máli þegar kemur að því að efla og auka hlut kvenna, hvort sem það er í sveitarstjórnum eða landsmálum, er að við jöfnum foreldraábyrgðina. Ég held, og ég hef haldið því fram og m.a. úr þessum stól hér, að fullt jafnrétti milli kynjanna náist ekki fyrr en foreldraábyrgðin verður jöfn.

Þegar ég tók sæti á Alþingi haustið 2007 flutti ég frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem m.a. hafði það markmið að gera ýmsar breytingar sem ég tel hjálpa til að jafna foreldraábyrgð. Ég ætla að endurflytja það þótt ég nái ekki að mæla fyrir því. Fyrir utan það að við þurfum að jafna foreldraábyrgðina ætla ég líka að leyfa mér að halda því fram, þó að ég baki mér jafnvel óánægju ýmissa kynsystra minna, að við konur sjálfar þurfum að horfa í eigin barm þegar kemur að árangri okkar og kynsystra okkar í pólitík og þegar kemur að jafnri foreldraábyrgð.

Ég hef í höndum niðurstöður rannsóknar sem Alþjóðaþingmannasambandið beitti sér fyrir og var birt á síðasta ári. Þar voru tilgreindir þættir sem letja konur til þátttöku í stjórnmálum. Það er mjög sláandi að þeir þættir sem nefndir eru hjá konunum eru í fyrsta lagi fjölskylduábyrgðin, í öðru lagi ríkjandi viðhorf gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu og í þriðja lagi skortur á stuðningi fjölskyldu.

Hjá karlmönnum er skortur á stuðningi fjölskyldu í áttunda sæti, fjölskylduábyrgðin í ellefta sæti og ríkjandi viðhorf gagnvart viðhorfi karla í 13. og næstsíðasta sæti. Þá spyr ég: Hver hefur sett á konur þá hlekki að fjölskylduábyrgðin sé ein þeirra? Ég vil taka það fram til að forðast misskilning að ég er að tala um kringumstæður þar sem foreldrar eru báðir virkir og í fullu standi til að sinna börnum. Eru það ekki líka kröfur kvennanna sjálfra? Eru konur ekki allt of uppteknar af því að telja sjálfa sig bera fjölskylduábyrgðina og vilja stjórna þar? Heimilið er sá vettvangur sem konur hafa haft stjórn á lengst af, alla vega síðustu áratugina, og það er eins og konur séu svo ragar, tregar, ófúsar — ég veit ekki hvaða orð ég á að nota — til þess að sleppa þessum taumum. Ég leyfi mér að halda því fram að ef konur mundu í vaxandi mæli gera þá kröfu að karlar axli jafna ábyrgð á t.d. foreldrahlutverkinu — þær eru vissulega farnar að gera þessar kröfur til barnsfeðra sinna — mundi hitt koma mikið af sjálfu sér. Ég tek fram að þar sem ég þekki til vilja flestir ungir menn í dag ólmir komast að og fá að vera virkari og meiri þátttakendur í lífi barna sinna, koma þar meira að málum. Ég held nefnilega að um leið og við konur förum að virkja karlana betur í fjölskylduábyrgðinni og foreldraábyrgðinni gerist tvennt: Þeir hafa minni tíma til að sinna hlutum eins og stjórnmálum og konurnar hafa meiri tíma. Kynin fara að hafa jafnari tíma til að sinna hlutum eins og stjórnmálum

Ég hef haldið því fram að mesta vannýtta auðlind samtímans þegar kemur að umönnun barna sé tími karlanna. Og það stendur engum nær en okkur konunum að gera þá kröfu til karlanna, barnsfeðranna, að þeir axli þá ábyrgð og þeir eru algerlega tilbúnir. Þeir vilja það, þeir biðja um það, þeir kalla eftir því og ég held að það sé tími til kominn að við svörum því kalli. Þess vegna held ég, af því að við erum að tala um gera eigi, að ein af þeim aðgerðum sem Jafnréttisstofa á að grípa til í tengslum við þá hugarfarsbreytingu sem við erum að tala um, séu þessi skilaboð til kvenna: Virkið feðurna meira til að ala upp börnin.

Ég nefndi áðan að þátturinn sem skorar næsthæst þegar kemur að því að letja konur til þátttöku í stjórnmálum er ríkjandi viðhorf gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu. Þar þurfum við konur að horfa í eigin barm af því að okkur sjálfum finnst svo sjálfsagt að aðrar konur sinni börnum. Ég hef sem lögmaður mikið sýslað við að hjálpa fólki að skilja, að gera samninga um hvernig það ætlar t.d. að haga uppeldi barnanna eftir skilnað. Ég verð vör við að konur sem vilja í anda jafnréttisbaráttu og fulls jafnréttis t.d. skipta umönnun barnanna til jafns, eru litnar hornauga af samfélaginu. Þær eru litnar hornauga af öðrum konum. Þær fá jafnvel bágt fyrir frá kynsystrum sínum að þær skuli leyfa sér að hleypa feðrunum svona að og eru spurðar hvort þær séu ekki alveg með réttu ráði. Þarna þurfum við konur líka að horfa í eigin barm. Við ætlumst til að fá jafna hlutdeild í ýmsum völdum í þessu samfélagi. Við verðum þá líka að horfast í augu við að þar sem við höfum haft völdin hingað til, á heimilunum og gagnvart uppeldi barna, þurfum við á móti að hleypa körlunum að. Ég held, eins og ég sagði áðan, að ef við konur tökum okkar dálítið tak og gerum í fyrsta lagi þessar kröfur til karlanna gagnvart foreldraábyrgðinni og fjölskylduábyrgðinni og ef við hættum að vera svona gagnrýnar gagnvart öðrum konum sem eru brautryðjendur hvað þetta varðar er ég nokkuð viss um að annað fylgir á eftir.

En við erum alltaf að tala um þetta, við erum alltaf að tala um hvað þarf að gera. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var með metnaðarfullar yfirlýsingar í jafnréttismálum um jafna stöðu kynjanna í ráðum og nefndum og hvað það hét allt saman. En þegar kom að aðgerðunum endurtók sama sagan sig, hlutföllin voru ójöfn, voru annaðhvort engar konur eða engir karlar í ráðum og nefndum. Þetta er líka eitthvað sem við þurfum að skoða betur því að ég held því fram að ef við virkilega viljum ná árangri á þessu sviði sé það miklu minna mál en við höldum. Við erum svo óskaplega upptekin af því að tala um það í staðinn fyrir að gera það sem þarf.

Af því að ég nefndi hér nefndir og ráð eru örugglega fleiri en ég sem tóku eftir því ekki fyrir löngu síðan að meira að segja þingið gerði mistök þarna. Þegar kom að því að velja í stjórnarskrárnefndina var ein kona valin í hana. Hvaða skilaboð eru það út í samfélagið? Ég hefði sagt nákvæmlega það sama ef þetta hefðu mest verið konur og bara einn karl. Sama gerðist með eitt bankaráðið. Sama gerðist um daginn hjá samgönguráðherra, minnir mig, sem skipaði einhverja úrskurðarnefnd. Þar voru eingöngu konur í nefndinni.

Ég vil ljúka þessu á því sama og ég byrjaði: Til þess að aðgerðir af því tagi sem við ræðum í þessari þingsályktunartillögu, aðgerðir sem við ætlum að fela Jafnréttisstofu — jafnágæt og hún er — nái árangri verðum við að byrja á hugarfarsbreytingunni. Við verðum að byrja á okkur sjálfum, konur og karlar. Við sem erum á miðjum aldri erum afsprengi ákveðinna hefða sem við ólumst upp við. Við verðum þess vegna daglega og oft á dag að hugsa: Setjum við örugglega brautina að jafnara samfélagi fyrir bæði konur og karla með þeim aðgerðum sem við höfum gripið til? Við skulum hætta að tala um þetta og byrja að framkvæma. Það er það sem er nr. eitt, tvö og þrjú sem Jafnréttisstofa þarf að gera og verður spennandi að sjá hvað það verður. Ég hefði kosið að það væru meiri upplýsingar um það í þessari tillögu en ég ber fullt traust til Jafnréttisstofu til þess að gera þetta og segi bara: Því fyrr því betra. En lokaorð mín verða þessi: Við konur skulum líka horfa á okkur sjálfar því að á meðan við gerum ekki þá kröfu til okkar að við hleypum feðrunum betur að t.d. uppeldi barna, getum við ekki ætlast til þess að karlarnir hleypi okkur að, t.d. í stjórnmálunum.