136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

aðstoð við VBS og Saga Capital.

[13:50]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Forseti. Það er auðvitað eins og hver annar útúrsnúningur hjá hv. formanni viðskiptanefndar að halda því fram að hér hafi engir fjármunir farið á milli. Þeir fóru á milli og það á að borga þá. Þeir fóru ekki á milli núna, þeir fóru á milli í haust. Þannig að við skulum ekki halda því fram að engir fjármunir hafi farið á milli. Þetta er skuld þessara fyrirtækja við ríkissjóð.

En mig langar til að setja þetta mál í samhengi við það hvernig hinn almenni borgari sem skuldar skatta er meðhöndlaður af sama fjármálaráðuneyti. Ef búið er að gera fjárnám hjá einstaklingi en hann vill samt reyna að koma sér hjá gjaldþroti og borga sína skattaskuld getur hann samið við innheimtumann ríkissjóðs um að borga á sex mánaða tímabili vextina plús eitthvað inn á höfuðstólinn á 15–25% vöxtum. (Gripið fram í.) Fyrirgefið, á 25% vöxtum núna en það er talið að þeir muni lækka niður í 15% frá og með morgundeginum. Þetta eru upplýsingar frá innheimtumanni ríkissjóðs.

Síðan er sérstök heimild í 3. mgr. 113. gr. skattalaga um það að ef innheimtumaður telur að hægt sé að gera samning við skuldara, skattaskuldara, megi gera við hann lánssamning til allt að 10 ára á verðtryggðum vöxtum eins og þarna er verið að gera en vextirnir eru 5,9%. Og það er fasteignaveð. Ég veit ekki til að það séu nokkur veð hjá þessum aðilum, og það er ekki einu sinni, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á, skert hlutafé þessara eigenda. Þetta hlýtur að kalla á spurningar um hvað eigi þá gera fyrir allan almenning í landinu ef hægt er að gera þetta fyrir örfáa eigendur hlutafjár í þessum fyrirtækjum.