136. löggjafarþing — 118. fundur,  31. mars 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Hann segir að þetta sé ekki verulegur kostnaðarauki fyrir ríkissjóð og nefnir að hámarkskostnaður fyrir tilsjónarmann sé 200.000 kr. Það fer þá væntanlega eftir því hversu margir þeir eru hvort þetta verður verulegur kostnaður.

Ef ég skil málið rétt gengur það út á að lengja í lánum, ekki að taka skuldina af heldur lengja í lánum með einhverjum hætti. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef það er rangt. Þetta snýst um það að ef ég er í þeirri stöðu að geta ekki borgað af lánum mínum einhverra hluta vegna er greiðslubyrðin lækkuð en það er ekkert tekið af heldur er þetta fyrst og fremst lenging. Það væri ágætt að fá að vita hjá hv. þingmanni hvort þetta sé rétt nálgun eða hvort um einhverjar niðurfellingar sé að ræða. Það er stóra málið, er þetta einhvers konar niðurfelling eða er þetta bara lenging?

Í öðru lagi spyr ég hvort þetta hafi verið kostnaðargreint. Miðað við þær upplýsingar sem maður hefur frá Seðlabankanum sem eru samt sem áður ekki nýjar er ekki ólíklegt að margir þyrftu á einhvers konar fyrirgreiðslu að halda þannig að þær gætu orðið nokkuð margar, 200.000 krónurnar, og ef um það er að ræða í ofanálag, til viðbótar við kostnað í tengslum við lánin sjálf, gæti það oltið á einhverju. Það væri gott að fá að vita kostnaðarmatið og er þetta bara lenging eða er einhver niðurfelling í þessu?