136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:48]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn frumvarp um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og það hefur verið mjög fróðlegt að hlusta á ræður hv. þingmanna í kvöld. Margt hefur komið fram í þeim og er alveg ljóst að hv. þingmenn binda miklar vonir við að 20% hlutfall af kostnaði sem á að endurgreiða kvikmyndafyrirtækjum verði til þess að erlend stórfyrirtæki á sviði kvikmyndagerðar muni sjá sér hag í því að koma hingað til lands og taka upp kvikmyndir hér.

Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, sem talaði fyrir stuttri stundu, að auðvitað er þetta bara von um að þessir hlutir geti gerst og auðvitað vonum við öll að það verði að veruleika að hér geti skapast iðnaður á þessu sviði og að störfum fjölgi, því að við þurfum svo sannarlega á því að halda eins og sakir standa.

Við höfum, hv. þingmenn, í ræðum okkar í kvöld minnst á fjölda kvikmynda og verkefna sem hafa verið tekin upp hér á landi á undanförnum árum og fjallað um hvaða áhrif það hefur haft á þeim svæðum sem þessar kvikmyndir hafa verið teknar upp. Ég nefndi í fyrri minni ræðu í kvöld hvaða áhrif þetta hafði á Suðurnesjum þegar stórmynd var tekin þar upp árið 2005 og hvaða áhrif þetta getur haft á ferðaþjónustuna í landinu, sem er auðvitað mjög jákvætt því að hver einasta kvikmynd sem tekin er upp hér á landi í okkar stórbrotnu náttúru hlýtur að vera veruleg auglýsing fyrir landið gæti gert það að verkum að útlendingar fengju frekari áhuga á að heimsækja okkur.

Eitt er það fyrirtæki sem við höfum ekki minnst neitt á í ræðum okkar í kvöld, það byrjaði smátt en er orðið stórfyrirtæki hér á landi, þetta er ævintýrið í kringum Latabæ. Latibær hefur í raun sannað að það er ekkert því til fyrirstöðu að við getum framleitt hér á landi hágæða iðnaðarframleiðslu sem á erindi víða um heim. Það er auðvitað mikilvægt að hafa í huga að þetta gerist ekki af sjálfu sér, það tekur langan tíma að byggja upp „concept“ eins og Latibær er orðinn og það verður að hefjast handa nú þegar til að undirbúa það sem tekur við þegar Latabæjarævintýrinu lýkur, því að öllum ævintýrum lýkur og það hlýtur að koma að því með Latabæjarævintýrið eins og önnur. Byggð hefur verið upp þekking meðal starfsmanna og fjárfestingar hafa verið gerðar í tækjabúnaði og aðstöðu. Þessa þekkingu þarf að nýta áfram til frekari sóknar.

Okkur hefur orðið tíðrætt í kvöld einmitt um þá þekkingu og reynslu sem skapast hefur hér á landi á undanförnum árum í þessum iðnaði og sú þekking og reynsla er ekki síst í þessu fyrirtæki, Latabæjarfyrirtækinu. Það ætti því að vera markmið okkar á Íslandi að allt árið um kring störfuðu nokkur svona „latabæjarfyrirtæki“ sem skila af sér framleiðslu með reglubundnum hætti á alþjóðamarkað, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.