136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alltaf ánægður með Sjálfstæðisflokkinn þegar hann talar á þennan veg og ég hef yfirleitt verið ánægður með Sjálfstæðisflokkinn að því er varðar atvinnumál og hef átt mjög gott samstarf við þann flokk í þeim efnum. Það þarf ekkert að kvarta undan honum, ekki öllum, hluta hans.

Hv. þingmaður talar um það hér að hún gæti vart mælt sökum þreytu því nú væri langt liðið á nóttu. Nú skal ég trúa hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir því að þó að klukkan sé hálftvö að nóttu þá telur iðnaðarráðherra að það sé ekki of seint til þess að mæla af nokkrum þrótti og þess vegna lengi nætur. Þetta er bara partur af eðlilegum starfsdegi þeirra sem að hafa for.. (Gripið fram í.) Já, (Gripið fram í: Hjá iðnaðarráðherra.) hjá iðnaðarráðherra. (Gripið fram í.) Það getur vel verið en iðnaðarráðherra er bara vakinn og sofinn yfir þeim verkefnum sem honum er trúað fyrir.

Hins vegar kom mér það svolítið á óvart að heyra hv. þingmann lýsa yfir mikilli ánægju sinni með það frumvarp sem hún nefndi að hefði verið til umræðu hér áðan um endurgreiðslu vegna kostnaðar af kvikmyndagerð á Íslandi. Ég veit mætavel að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins margir hafa stutt það. En ýmislegt kom mér á óvart hér í kvöld. Sá sem fyrstur tók til máls um það mál var fyrrverandi fjármálaráðherra. Hvernig skyldi nú standa á því, frú forseti, að það frumvarp var ekki lagt fram og komst ekki í gegnum ríkisstjórn fyrr en það var komin ný ríkisstjórn? Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, veit það kannski betur en margir hér í salnum. Það var nú einfaldlega þó það væri breiður vilji fyrir því meðal margra góðra þingmanna Sjálfstæðisflokksins þá (Gripið fram í.) var sá vilji ekki í sama mæli endurspeglaður af ráðherrum flokksins. Því fór sem fór.

Ég fagna því auðvitað að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru, alla vega sumir, með ráði og rænu í nægilegum mæli til þess að koma hér upp og fagna hverju málinu á fætur öðru sem kemur úr ranni iðnaðarráðuneytisins. Það sýnir mér nú bara að batnandi mönnum er best að lifa. En almennir (Gripið fram í.) þingmenn flokksins hafa (Forseti hringir.) miklu betra skyn á framfaramálum en sumir þeirra sem verið hafa í forustu flokksins.