136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni finnst eðlilegt að sett sé í stjórnarskrána ákvæði um náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar. Segjum að þetta stjórnlagaþing, sem hann hyggst setja í gang, og flestir vilja nú, komist að annarri niðurstöðu, hafi bara ekki þessa skoðun hv. þingmanns og ætli sér ekkert að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána. Hvers vegna í ósköpunum er verið að breyta því núna og svo er það tekið aftur út? Af hverju er verið að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnlagaþinginu? Ætla menn ekkert að halda stjórnlagaþing? Getur það verið að það sé í bakhöndina, að það sé ekki meiningin að hafa neitt stjórnlagaþing?

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hann starfar núna á stjórnlagaþingi og ég reikna með að allir þingmenn hér starfi á stjórnlagaþingi og ég reikna með að hver einasti þingmaður tali í þessu máli af því að þeir eru á stjórnlagaþingi. Það verða auðvitað tvö stjórnlagaþing samtímis til staðar í landinu. (Gripið fram í.) Jú, það verða tvö stjórnlagaþing starfandi hvort við hliðina á öðru þennan tíma. (Gripið fram í.) Nei, bæði verða — Alþingi er stjórnlagaþing (Gripið fram í.) og getur breytt stjórnarskránni hvenær sem er. Og það gæti verið að þegar búið er að breyta 79. gr. afnemi Alþingi seinna stjórnlagaþingið — þetta nýja. Það gæti gert það og borið það undir þjóðina. Svo gæti líka gerst að nýja stjórnlagaþingið ákveði að afnema Alþingi og bæri það undir þjóðina.

Hvað eru menn eiginlega að gera? Það eru komnir tveir aðilar sem geta breytt stjórnarskránni, hlið við hlið. (Gripið fram í.) Þetta er hárrétt hjá mér. Við erum ekkert að afsala okkur stjórnlagavaldinu með því að setja á fót þetta stjórnlagaþing. Hvort um sig getur afnumið hitt. (Gripið fram í.) Jú. (Gripið fram í: Nei.) Vissulega. Nýja stjórnlagaþingið getur breytt 79. gr. og gamla Alþingi, sem er búið að starfa frá 930, og við erum búin að sverja eið að, samkvæmt stjórnarskrá þess, það getur sett í stjórnarskrá nýtt ákvæði sem tekur úr gildi þetta bráðabirgðaákvæði um nýtt stjórnlagaþing.