136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég vildi gjarnan spyrja: Ef þessi breyting verður samþykkt mun Alþingi samkvæmt 80. gr. geta breytt stjórnarskrá eftir sem áður. Hvenær sem er. Hið nýja stjórnlagaþing getur líka breytt stjórnarskrá. Segjum að þetta stangist á. Segjum að sett verði tvö stjórnlagaþing sem breyta stjórnarskránni og segjum að það stangist á. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér lausnina á því? Segjum að Alþingi samþykki að leggja stjórnlagaþingið niður og þjóðin samþykki það. Er þá stjórnlagaþingið farið?

Ég spyr hv. þingmann: Það eru þarna þrjár greinar sem fjalla í fyrsta lagi um náttúruauðlindir og í öðru lagi um kosningar, þjóðaratkvæðagreiðslur. Segjum að stjórnlagaþingið, sem ég býst við að hv. þingmaður ætli sér að setja í gang, komist að því að þetta eigi að vera öðruvísi. Segjum að kvótakóngar komist allir á stjórnlagaþingið og þeir ákveði að hafa þetta öðruvísi. Af hverju er verið að breyta þessu áður en stjórnlagaþingið tekur til starfa? Hvað er á bak við það? Er verið að taka fram fyrir hendurnar á því? Treysta menn ekki stjórnlagaþinginu, þessu nýja? Af hverju getur stjórnlagaþingið nýja ekki tekið á þessu með þjóðaratkvæðagreiðslurnar? Er það ekki eðlilegt? Og þeir kannski vilja hafa þetta 10% í staðinn fyrir 15%, sem hér er lagt til, sem mörk. Hvers vegna er verið að taka fram fyrir hendurnar á stjórnlagaþinginu? Ætla menn ekkert að halda það? Getur verið að það sé grunnurinn á bak við þetta að menn ætli sér ekkert að setja þetta stjórnlagaþing í gang?