136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:31]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlýtt á málflutning hv. sjálfstæðismanna í þessari umræðu og reynt að gera mér grein fyrir því hvar hin efnislega gagnrýni á frumvarpið liggur. Hvað er það nákvæmlega sem veldur því að hvort tveggja hávaði, reiði og umhyggja fyrir Framsóknarflokknum virðast vera meginþemað í þeirri ræðu sem hér var flutt?

Mig langaði að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson tveggja spurninga. Er hv. þingmaður sammála því eða andvígur að auðlindir verði settar í þjóðareign? Í þjóðareign felst það væntanlega að ríkið fer með þær heimildir sem því fylgja en óheimilt er að selja eða láta þau réttindi af hendi varanlega — það er kjarninn í því. Er hv. þingmaður sammála eða andvígur því að sett verði í stjórnarskrá ákvæði þess efnis að auðlindir verði ekki látnar varanlega af hendi? Þetta er fyrri spurningin.

Seinni spurningin er: Er hv. þingmaður sammála eða andvígur því að þjóðin eða almenningur í þessu landi fái aukin tækifæri til þess að bera mál undir þjóðaratkvæði? Það er hugmyndafræðin sem er grunnurinn að 3. gr. og mér hefur þótt, virðulegi forseti, að í þessari umræðu hafi hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins forðast að ræða þetta efnislega. Þeir hafa hundskammað formann sérnefndar um stjórnarskrá, að hv. þingmaður hafi beitt hörku í nefndinni. Þeir hafa allt að því lýst sig fórnarlömb að hafa ekki komið mjög að samningu þessa máls o.s.frv. En hv. þingmenn hafa algerlega forðast að ræða það efnislega, tjá það, hvort þeir séu samþykkir eða fylgjandi þeirri hugmyndafræði sem býr (Forseti hringir.) að baki 1. og 3. gr. frumvarpsins.