136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Einn aðaltilgangur þess að hafa þingið í opinni málstofu er að menn geti skipst á skoðunum, að menn geti rökrætt mál og rætt ýmsar hliðar þeirra. Nú er verið að ræða stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og þá bregður svo við að allir fara heim, enginn vill taka þátt í umræðunni. Það er bara sagt að málið sé útrætt og það eigi að ganga frá því. Þetta er einkennilegt viðhorf til löggjafarsamkundunnar landinu, herra forseti.

Ég hefði haldið að þetta væri einmitt upplagt fyrir þá sem vilja annars vegar leiða sjálfstæðismönnum það fyrir sjónir að þeir séu á villigötum og hins vegar fyrir hina að fá upplýsingar um það mál sem hér um ræðir vegna þess að fjölmargar spurningar, herra forseti, hafa verið lagðar fram um það hvað einstök efnisatriði í málinu þýða. Til dæmis: Af hverju er þriðja tillagan á örfáum vikum að koma fram núna um stjórnlagaþingið? Hvernig stendur á því að flutningsmenn vilja ekki ræða það? (Gripið fram í: Mál …) Hér er einmitt staðurinn til að eiga þessi orðaskipti, herra forseti, ég tek undir það með þeim sem hér hafa áður talað.