136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

orð þingmanns í utandagskrárumræðu – umræða um dagskrármál – fundur í umhverfisnefnd.

[14:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mig langaði í fullri vinsemd til að spyrja hæstv. forseta tveggja spurninga. Í gær gerðist sá einstæði atburður, tel ég, að hér var til umfjöllunar frumvarp til stjórnarskipunarlaga og enginn flutningsmanna frumvarpsins sá sóma sinn í að vera við umræðuna. Það tel ég að sé einsdæmi og (Gripið fram í.) dónaskapur gagnvart þinginu og þjóðinni og stjórnarskránni. Ég vildi bara fá upplýsingar um það hvort ekki yrði tryggt að allir flutningsmenn frumvarpsins yrðu við umræðuna það sem eftir væri.

Í annan stað langar mig að spyrja hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda fundi áfram, hvort það verður kvöldfundur eða næturfundur. Ástæðan fyrir að ég spyr er að fyrir svona 30 árum var komið hér á þeirri reglu að frumkvæði Lúðvíks Jósepssonar, formanns Alþýðubandalagsins, að ekki væru haldnir næturfundir (Forseti hringir.) meira en tvo daga í röð. (Forseti hringir.) Hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, (Forseti hringir.) hefur margoft vísað til þeirrar reglu (Forseti hringir.) þegar dagskrá hefur verið komið saman. (Forseti hringir.) Ég vildi bara fá upplýsingar um þetta hjá hæstv. forseta.