136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir lítillætið að leyfa okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að halda hér áfram. Ég hygg að það sé einsdæmi í siðuðum löndum að þegar fjallað er um stjórnarskrá lýðveldis í þjóðþingi sjái þeir menn sem gera tillögur til breytinga ekki sóma sinn í því að vera viðstaddir umræðu um eigið mál.

Það væri líka sérstakt ef hæstv. ráðherrar væru ekki viðstaddir tillöguflutning um stjórnarskrána ef aðrir stæðu að þeim tillöguflutningi. Þannig að ég óska nú eftir því að hæstv. forseti fresti þessum fundi eða veiti okkur þingmönnum upplýsingar um hvernig gekk að ná í þessa tilteknu ráðherra og hver svörin urðu. Við sættum okkur ekki við þau svör sem hér hafa verið borin á borð heldur viljum við fá svör við því hver viðbrögðin urðu við tilraunum forseta og hvort hann hyggst halda áfram (Forseti hringir.) fundi miðað við þær útskýringar sem gefnar hafa verið og þá hvers vegna.