136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Ég vildi koma með vinsamlega ábendingu til forseta Alþingis vegna þess að ég tel að mjög athyglisverðar upplýsingar hafi komið fram í ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar þegar hann vék að ritstjórnargrein í Tímariti lögfræðinga sem er eftir umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður Alþingis leggur þar mikla áherslu á að við þessar aðstæður sé ekki vegið að grunnreglum réttarríkisins. Vægi orða umboðsmanns Alþingis í þeim efnum er mjög mikið. Mér finnst að forseti Alþingis ætti að taka mið af þeim.

Ég mundi því vilja skjóta því að forseta þingsins að hann láti boða til fundar hjá formönnum þingflokka og að hann íhugi það að á þann fund yrði umboðsmaður Alþingis kallaður til þess að fara örlítið nánar yfir þetta mál og grundvöll þessarar (Forseti hringir.) lagasetningar og þessa frumvarps sem við ræðum hér. (Forseti hringir.) Ég veit ekki til þess að neitt í þingsköpum Alþingis banni slíkt (Forseti hringir.) en mér fannst ástæða til þess að koma þessari ábendingu á framfæri við forseta.