136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér hafa komið fram af hálfu annarra hv. þingmanna. Það er með ólíkindum að helstu forvígismenn þessa máls, forustumenn þeirra flokka sem mynduðu ríkisstjórn sem hafði það að aðalstefnumiði, að því er virðist, að koma þessum stjórnarskrárbreytingum í gegn, skuli ekki láta svo lítið að vera við umræðuna.

Við ræddum þetta mál í gærkvöldi og þá var óskað eftir nærveru þessara hv. þingmanna, sem um leið eru ráðherrar. Í dag sást þeim bregða fyrir í húsinu en ekki voru þeir við umræðuna, þessir hv. flutningsmenn frumvarpsins, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, leiðtogar þeirra flokka sem áttu frumkvæðið að því að þetta mál er hér flutt eins og kunnugt er. (Forseti hringir.) Þetta er algjörlega með ólíkindum og ég spyr hæstv. forseta hvort von sé á (Forseti hringir.) 1. og 2. flutningsmanni málsins í húsið til að taka þátt í umræðunni. Að öðrum kosti tel ég ófært að halda henni áfram.