136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra af hverju hún hlusti ekki á alla umsagnaraðila sem hafa talað um skamman fyrirvara og um óvandaðan undirbúning. Af hverju á ekki að ræða málið betur? Ég veit alveg að hæstv. forsætisráðherra vill ekki hlusta á okkur sjálfstæðismenn. En af hverju hlustar hún þá ekki á alla umsagnaraðilana? (PHB: Þjóðina.) Þjóðina, já, Sigurð Líndal, Ragnhildi Helgadóttur, Kristrúnu Heimisdóttur. Þetta er fólk sem er ekki hægt að hlusta á núna af því að það hentar ekki. Þess vegna segi ég að pólitískur hentugleiki sé við lýði. Það er hægt að gagnrýna okkur sjálfstæðismenn fyrir margt á 18 árum en ég ítreka að við höfðum forustu í ríkisstjórn þegar stjórnarskránni var breytt þrisvar sinnum. Það er á ábyrgð forsætisráðherra að kalla alla stjórnmálaflokka saman. Það er ekki bara eins og ég segi upp á punt að vera forsætisráðherra. Það er á ábyrgð forsætisráðherra að kalla alla stjórnmálaflokka saman til að ná sátt um stjórnarskrána sem er mikilvægari en allir stjórnmálaflokkar og allir stjórnmálaforingjar. (Gripið fram í: Sáttasemjari.) Já, forsætisráðherra á einmitt að vera sáttasemjari. Við náðum að breyta þremur mikilvægum köflum í stjórnarskránni 1991, 1995, víðtæk sátt í samfélaginu, og síðan 1999. En hvað gerist? Þess vegna tala ég um að Samfylkingin hefur galað og gólað í mörg ár um að breyta vinnubrögðum. Það þarf að breyta hugsunarhætti, hugarfari — og hvað gerist svo þegar hún fær embætti forsætisráðherra? Þá er traðkað á stjórnarskránni, öllum vinnubrögðum og öllu vinnulagi breytt og engu samkomulagi náð varðandi stjórnarskrána. Við sjálfstæðismenn erum búin að margítreka að við viljum ná samkomulagi, við viljum breyta stjórnarskránni, við viljum efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, við viljum ná almennum lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Við viljum ræða þessi mál. En það er bara út af því að mönnum finnst smart að traðka í leiðinni á Sjálfstæðisflokknum. Gott og vel, (Forseti hringir.) við kveinkum okkur ekkert undan því en það er bara ekki í boði þegar við erum að ræða stjórnarskrána. Ný og breytt vinnubrögð, (Forseti hringir.) segið mér eitthvað annað.