136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:28]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta er í þriðja sinn sem ég sé mig knúinn til þess að vekja athygli á því að enn hefur ekki verið boðað til fundar í umhverfisnefnd. Það var á miðvikudaginn síðasta sem meiri hluti nefndarinnar fór fram á það við formanninn, eftir að hann hafði með skömmum fyrirvara fellt niður reglulegan fund og boðað fund í næstu viku, að fundur yrði boðaður í umhverfisnefnd. Samkvæmt þingsköpum ber formanni að boða til fundar ef 1/3 þingmanna í nefndinni óskar eftir fundi.

Í fjóra daga, miðvikudag, fimmtudag, föstudag og laugardag, hefur formaður nefndarinnar brotið þingsköpin þrátt fyrir að forsetadæmið hafi í tvígang lofað að ganga eftir því við formanninn að fundur yrði boðaður. Því miður hefur það ekki gerst enn þá og nú er þessi dagur að verða liðinn og ég velti því fyrir mér til hvaða bragða forseti ætlar að grípa í stöðu eins og þessari.