136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

samskipti ráðamanna á leiðtogafundi í ljósi hryðjuverkalaga.

[10:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er skoðun hv. þingmanns að það helsta sem samningamenn og ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar eigi að gera sé að stilla sér upp í einhverjar kurteisismyndatökur með einhverjum ráðherrum úti í heimi. Það er ekki leiðin til að ná niðurstöðu. (Gripið fram í.)

Hins vegar er alveg ljóst að íslenska ríkisstjórnin, sú sem nú situr alveg eins og hin fyrri, hefur reynt að koma þessu máli í þann farveg að það sé hægt að fara í samningaviðræður um bærilega niðurstöðu. Ég vek eftirtekt á því — ég hef áður í þessum umræðum vitnað í nýkjörinn formann Sjálfstæðisflokksins — að hann sagði í umræðum á sínum tíma að hann teldi góðan möguleika á því að eignir Landsbankans dygðu fyrir forgangskröfum þannig að ekkert félli á ríkissjóð. Þetta sagði hv. þm. Bjarni Benediktsson. Ég var honum ekki sammála þá en ég er honum sammála núna. Ég held að það séu vaxandi líkur á því að eignirnar dugi til að hægt sé að ná því sem við getum kallað farsæla niðurstöðu. Hins vegar liggur alveg ljóst fyrir að það er skýlaus krafa okkar, ekki síst eftir þá nefndarniðurstöðu (Forseti hringir.) sem kom frá breska þinginu, (Forseti hringir.) að Bretar auðvitað aflétti hryðjuverkalögunum og það hið allra fyrsta. (Forseti hringir.) Um það hljótum við öll að vera sammála.