136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að elta mikið ólar við ummæli hv. þm. Marðar Árnasonar hér áðan. Ég tel víst að ónákvæmnin og rangfærslurnar í máli hans stafi ekki af neinni meinbægni eða neinu slíku heldur séu einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki verið viðstaddur síðustu tvær vikur og hefur þess vegna ekki fylgst með þeirri málefnalegu umræðu sem átt hefur sér stað um stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður hefur ekki heyrt þau sjónarmið sem fram hafa komið og var þess vegna fullkomlega á villigötum í máli sínu hér áðan.

En hitt vildi ég nefna að það hefur komið skýrt fram í þessari umræðu að hæstv. forseti þingsins — (Gripið fram í: Af hverju syngur þú ekki eins og Árni Johnsen?) Ég gæti, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sungið eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði hér fyrir nokkrum árum þegar hann söng hér í ræðustól Alþingis Hani, krummi, hundur, svín. Og var þar töluvert á undan hv. þm. Árna Johnsen í sambandi við (Forseti hringir.) söngæfingar í ræðustól Alþingis. (Gripið fram í.)