136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:31]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég segja að það er að sjálfsögðu mikill óróleiki sem fylgir umfjöllun um þetta frumvarp hér á Alþingi og það nær út fyrir Alþingishúsið. Hér er verið að gera tilraun til þess að berja í gegn breytingar sem mjög stór hópur manna í samfélaginu er ósáttur við. Það skapar ófrið og það skapar óróleika.

Hvað varðar það að almenningur fái meiri aðkomu að ákvörðunum með þjóðaratkvæðagreiðslu sérstaklega þá höfum við sjálfstæðismenn ekki lýst okkur andstæðinga þess að sköpuð verði skilyrði til þess að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þurfum hins vegar að setja utan um það skynsamlegan ramma og við höfum gert athugasemdir við það. En þjóðaratkvæðagreiðslur er að mínu mati sjálfsagt að auka, ég tala nú ekki um þegar kemur að því að fjalla um breytingar á stjórnarskránni.

Hvað varðar auðlindirnar og það að tryggja, eins og hv. þingmaður sagði, varanlegan og ótvíræðan eignarrétt samfélagsins, ríkisins þá — sumir hafa kallað það þjóðareign. Ég tel, og vísa þá til þess frumvarps sem m.a. var til umfjöllunar hér árið 2007, að það eigi að vera hægt að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni, m.a. er verið að gera tilraun til þess í 1. gr. þessa frumvarps. Ég tel að það eigi að vera hægt að ná samkomulagi um það deilumál. En það verður að gæta þess (Forseti hringir.) að orða þau ákvæði ekki á þann veg að fyrirsjáanleg sé eilífðardeila og málaferli út af þeim breytingum.