136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:29]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal er hér kominn inn í umræðu og sjónarmið sem snertir frekar það sem kalla má fræðileg stjórnmál en praktísk. Þessi fræðilegu stjórnmál eru að mörgu leyti miklu skemmtilegri en þau viðfangsefni sem menn fást við dagsdaglega á þingi.

En ég ætla að víkja að spurningum um skilgreiningar á hugtökum og ég hefði byrjað ræðu mína hér áðan á því ef hv. þm. Pétur Blöndal hefði verið í salnum. Ég gat um það í ræðu minni þá að miðað við það sem okkur hefði farið á milli ætlaði ég að gefa honum kost á að taka til máls um þau sjónarmið sem ég setti fram hvað það varðar. Ég mun væntanlega gera það, eins og ég gat um áðan, hér síðar í umræðunni.

Ég vík þá fyrst að því sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi áðan varðandi auðlindirnar. Að sjálfsögðu er það maðurinn, mannauðurinn, sem skapar ákveðin verðmæti með hugviti sínu, hugmyndum og uppátækjum. Það var einmitt það sem einn mesti uppfinningamaður mannkynssögunnar, Tómas Alfa Edison, benti sérstaklega á, og vinur hans Henry Ford, að það væri fyrst og fremst spurningin um það — dugnaður, eljusemi, iðni, ástundun og uppfinningar gerðu það að verkum að til yrðu verðmæti.

Auðlind eins og olía er auðlind vegna þess að hún er það brennsluefni sem nothæfast er. Ef annað nothæfara brennsluefni fyndist væri hætt við því að olían yrði talin vera allt annað en auðlind og mundi jafnvel þvælast fyrir og teljast til einhvers sem væri slæmt. Bændurnir í Húnavatnssýslu töluðu t.d. um varginn sem gengi í árnar, en það var laxinn sem þeim var frekar illa við.