136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:51]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að um 85% af þeim athugasemdum sem komu fram standa óhaggaðar. En það sem ég var hins vegar að leggja áherslu á í málflutningi mínum áðan var hversu illa staðið var að málinu áður en það kom inn í þingið, (Gripið fram í.) hvernig vinnubrögð voru viðhöfð, og ég bar það saman við hvernig það var gert árið 2005. Þetta mál var unnið í mjög miklum flýti. Það voru fáir aðilar sem komu að því og fulltrúar stærsta stjórnmálaflokksins fengu alls ekkert að koma að því, það var alveg klárt.

Það passar að þeir aðilar sem áttu að vera til ráðgjafar höfðu yfir sér einhvern pólitískan blæ. (Gripið fram í.) — Það er bara þannig, þú getur rakið það: Fyrrum þingmaður, ráðgjafi Framsóknarflokksins og aðili sem beðinn hafði verið um að sitja sem ráðherra í núverandi minnihlutastjórn. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að orða það öðruvísi en svo en að þeir hafi yfir sér pólitískan blæ. Ég ætla ekki að taka dýpra í árinni hvað það varðar.