136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Ég freistaðist til þess að kalla fram í ræðu hans áðan þegar hann viðhafði orð um þá sérfræðinga sem unnið hafa að undirbúningi málsins, m.a. Björgu Thorarensen, sem ég nefndi. Mér finnst ekki fara vel á því það sé kallað hallelúja-lið þegar sérfræðingar sem þekktir eru af störfum á sínu fagsviði eru fengnir til þess að vinna í þágu lands og þjóðar að málefnum eins og þessum, að við viðhöfum slík orð. Ég hugsa að þau hafi fallið í hita leiksins og ætla ekki að gera sérstakt mál úr því.

En ég spyr hv. þingmann hvort málþóf þeirra sjálfstæðismanna í stjórnarskrárumræðunni sé ekki til endanlegs sannindamerkis um hversu illa Alþingi er fallið til þess að standa fyrir heildarendurskoðun á stjórnarskránni, og undirstriki nauðsyn þess að kjósa beint annað þing, stjórnlagaþing, sem leggi niðurstöður sínar fyrir þjóðina. Í þau sex ár sem liðin eru frá því að ég tók fyrst sæti á Alþingi hafa hér ítrekað verið skipaðar nefndir um stjórnarskrármál. Það hafa komið fram margvíslegar tillögur um breytingar á stjórnarskrá. Um sumar þeirra er mikill meiri hluti þingmanna sammála en þingið hefur verið algerlega ófært um að taka á þeim.

Nú þegar fluttar eru fram býsna rökstuddar breytingar klofnar þingið enn og aftur upp í flokkadrætti og 26 þingmenn skipa sér í að flytja hér meira og minna sömu ræðuna eftir einhverri flokkslínu í stað þess að við kjósum þá sem gefa kost á sér til þess að fjalla um stjórnarskrána í persónukjöri. Þá fáum við málefnalega og vandaða umfjöllun um heildarendurskoðun sem er laus við þessa flokkadrætti, málþófsæfingar og kosningabrag (Forseti hringir.) sem mér þykir vera að þessari umræðu.