136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:13]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem viðfangsefni að reyna að velta fyrir sér leiðum til að mæta þeim sjónarmiðum sem mönnum finnst vera rök í eða ástæða til að reyna að mæta sem eru sjónarmið um að allsherjarendurskoðun þurfi sem þó hafa ekki verið rökstudd nægjanlega að mínu mati. Ef við gefum okkur að við séum að leita að leiðum til að mæta þeim sjónarmiðum og svo þeim sjónarmiðum sem við höldum fram um stöðu Alþingis er eðlilegt að velta fyrir sér ýmsum möguleikum.

Í tillögum um stjórnlagaþing eru í raun og veru stjórnmálaflokkarnir sjálfir hluti vandans, þess vegna er talað um að ekki megi kjósa hlutfallskosningu heldur eigi að kjósa persónukjöri. Ef menn eru á þeirri skoðun að stjórnmálaflokkarnir séu vandamálið og flokksræði og annað slíkt leiði til þess að þingið starfi ekki eins og það ætti að gera getum við ekki látið þar við sitja að kjósa stjórnlagaþingið persónukjöri. Þá verðum við að innleiða persónukjörið á Alþingi. Það hlýtur að vera niðurstaðan þannig að það er eins gott að fara strax inn í þá umræðu.

Ég held, virðulegi forseti, að það gæti alveg verið leið að hugsa málið út frá því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefnir, það verði ákveðið að Alþingi haldi sérstakt stjórnlagaþing sem verður þá haldið á forsendum Alþingis og undir þess stjórn. Það mætti þó kjósa til þess menn til viðbótar alþingismönnunum, úr kjördæmunum með einhverjum tilteknum hætti, einhvern fjölda og sá hópur kæmi síðan saman til að vinna að því verkefni að fara yfir stjórnarskrána og semja nýja. Alþingi mundi þá að lokum afgreiða það mál og senda þjóðinni. Þetta hugsa ég að gæti verið leið til að ná því fram sem menn sækjast eftir.