136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:15]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í frammíkalli að greinilega er mikill misskilningur um hvernig þetta frumvarp kemur til með að virka. Og eins og við sérnefndarmenn segjum í minnihlutaáliti okkar þá er rökvilla í málinu því hugmyndin um stjórnlagaþing, eins og hv. þingmaður réttilega benti á, verður aldrei borin undir þjóðaratkvæði, því verið er að breyta stjórnarskránni með gamla fyrirkomulaginu núna og stjórnarskránni verður breytt. Þingkosningar verða og nýtt þing kemur saman sem væntanlega staðfestir þessar breytingar og þá ná þær fram að ganga.

Það sem við erum að segja er að það á að einbeita sér að 2. gr. frumvarpsins. Samþykkja 2. gr. frumvarpsins sem breytir 79. gr. stjórnarskrárinnar. Næsta þing sem kemur saman eftir kosningar, sem eru nú innan seilingar, getur þá tekið ákvörðun um að breyta stjórnarskránni aftur og borið það þá undir þjóðaratkvæði. Það er ekki verið að leggja það undir þjóðina með þessu frumvarpi að hún fái að greiða atkvæði um hvort stjórnlagaþing eigi að koma saman eða ekki. Með þessum hætti er verið að svipta Alþingi stjórnarskrárgjafarréttinum varðandi stjórnlagaþingið og ákveða þá breytingu á stjórnarskránni að Alþingi missi þessi völd. Það verður ekkert borið undir þjóðina því að þingkosningar verða og þingið mun staðfesta það. Það er því algjör misskilningur ef hv. flutningsmenn og meðmælendur frumvarpsins halda að þeir séu að búa þannig um hnútana með frumvarpi þessu að þjóðin geti greitt atkvæði um það hvort eigi að vera stjórnlagaþing eða ekki.

Þingið er að afsala sér einhliða þessum ákvörðunum í hendur annars aðila. Það er samkvæmt því sem ég les og fréttamenn hlýddu á aðalboðskapur hæstv. forsætisráðherra varðandi þetta mál. Á það munum við aldrei fallast.