136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:17]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur farið fram efnismikil umræða á síðustu dögum og við sjálfstæðismenn höfum lagt okkar af mörkum til þess að koma efnisatriðum okkar á framfæri við þingmenn og þjóðina.

Ég vil í þessari tíu mínútna ræðu minni sérstaklega bregðast við gagnrýni stjórnarliða um að við sjálfstæðismenn séum að halda uppi málþófi. Ég mótmæli því. Við erum ekki að halda uppi málþófi heldur hefur farið fram mikil efnisleg umræða. Við höfum jafnframt rætt um pólitíkina í málinu. Við höfum svarað athugasemdum stjórnarliða um málflutning okkar en ljóst er að hér hefur farið fram umræða sem við hefðum reyndar viljað að hefði ekki farið fram. Við höfum lagt meiri áherslu á að ræða mun frekar mál sem varða vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Við erum að sjá ýmis merki um það, m.a. í fréttum dagsins í dag og gærdagsins, að ástandið í samfélaginu sé ekki að fara á betri veg, aukin gjaldþrot fyrirtækja og aukin vandræði heimilanna. Og við höfum gagnrýnt harðlega þá forgangsröðun sem kemur fram í dagskrá þingsins undanfarna daga og ekki síst í dag.

Meginþunginn í umræðu stjórnarliða hefur verið ásakanir um að við séum að beita málþófi. Í ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær kom fram að hún taldi sig hafa hlustað á sömu ræðuna ítrekað. Það er náttúrlega engan veginn rétt. Í fyrsta lagi hefur hún nú ekki setið umræðuna alla. Í öðru lagi er það algjörlega rangt að hér hafi verið flutt sama ræðan aftur og aftur, því ítarlega hefur verið fjallað um efnisatriði málsins út frá mismunandi sjónarhornum.

En það er nefnilega dálítið sérstakt til þess að hugsa hversu lítil þolinmæði stjórnarliða er gagnvart umræðu frá okkar hendi. Fram hefur komið að sjálfstæðismenn hafa talað sennilega um 35 tíma í þessu máli og 24 þingmenn hafa rætt það. Ég fyrir mína parta hef notað einn klukkutíma af þessum 35 tímum.

Þegar við horfum á hvað raunverulegt málþóf er þá er það málþóf þegar hver og einn þingmaður tekur fleiri, fleiri tíma til að ræða sín hjartans mál. Það er ekki svo langt síðan að stjórnarliðar voru sjálfir stjórnarandstæðingar og vil ég draga það fram — ekki síst í umræðum þegar fyrri þingskapalög giltu — að hér voru haldnar langar ræður og lesið upp úr bókum og ljóðum og ég veit ekki hvað og hvað. Þess er skemmst að minnast að á árinu 1998 var það hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem sló öll met í lengd ræðutíma þegar hún ræddi í tíu tíma og átta mínútur um eitt mál, þ.e. húsnæðismálin. Ég hef ekki rætt á hinu háa Alþingi um það mál sem nú er til umræðu nema einn tíunda af þeim tíma. Hún ein notaði sem sagt tíu tíma á móti okkur 24 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem hafa rætt 35 tíma um það mál sem okkur stendur nærri. Að tala um að við stöndum í málþófi er algjörlega fráleitt.

Einnig er mjög athyglisvert að rifja upp það sem hv. stjórnarliðar hafa sagt í gegnum tíðina um aðferðir þeirra til að beita málþófi, sem var nú aldeilis málþóf þegar þær voru teknar upp í sex og tíu tíma ræður. Í DV í dag er vísað til orða þáverandi hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og núverandi hæstv. umhverfisráðherra. Þar segir m.a. að í desember 2007 hafi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar lagt fram frumvarp um breytingu á þingsköpum þar sem kveðið var á um skertan ræðutíma í 2. umr. Þá hófu vinstri grænir upp harða gagnrýni á það frumvarp og börðust hart gegn því. Hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, lét þau orð falla þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Við viljum eiga áfram þennan möguleika að stunda málþóf, þó það væri ekki nema neyðarréttur. Það er í raun lýðræðislegur réttur okkar til að vekja athygli þjóðarinnar og fjölmiðla á varhugaverðum málum.“

Við sjálfstæðismenn lítum svo á að hér sé varhugavert mál í umræðunni. En við erum ekki að beita málþófi. Við þurfum ekki annað en skoða fjölda tíma sem liggur þarna að baki.

Á heimasíðu hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundar Jónassonar, fjallar hann 21. janúar 2007 um málþóf eins og málþóf gerðust á sínum tíma. Hann segir, með leyfi forseta:

„Nokkuð hefur verið talað um málþóf á Alþingi í tengslum við stjórnarfrumvarpið um RÚV ohf. Þeir sem raunverulega hafa fylgst með framvindunni vita að þetta er ósanngjörn ásökun. Í fyrsta lagi er það ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem stendur í vegi fyrir því að samkomulag náist um framtíð Ríkisútvarpsins. Í öðru lagi er rétt að minna á að stjórnarandstöðunni hefur í tvígang tekist einmitt með langri umræðu að koma í veg fyrir vanhugsuð og stórskaðleg stjórnarfrumvörp um Ríkisútvarpið.“

Við erum þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það frumvarp sem við erum nú að fjalla um, um breytingar á stjórnarskránni, geti verið stórskaðlegt fyrir þjóðina. Stórskaðlegt. Hæstv. heilbrigðisráðherra beitti á sínum tíma, sem óbreyttur þingmaður þá, málþófi í máli sem hann hafði mikla sannfæringu fyrir að vert væri að taka langa umræðu um.

Síðan heldur hann áfram, með leyfi forseta:

„Stjórnarandstöðunni tókst einnig að fresta gildistöku vatnalaganna með langri umræðu. Það þýðir að þjóðin fær nú í vor tækifæri til að kjósa um þann umdeilda lagabálk.

Enda þótt þingmenn VG legðu sig alla fram um að koma í veg fyrir Kárahnjúkaslysið“ — eins og hann kallar það — „tókst ekki að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Þar var VG eitt á báti og mátti ekki á endanum við margnum.

Iðulega hefur flokknum þó tekist með harðfylgi á þingi að hafa jákvæð áhrif á umdeild þingmál. Stundum hefur það kallað á langa umræðu. Hinu má svo ekki gleyma að um yfirgnæfandi meirihluta þingmála ríkir breið sátt …“

Hann segir áfram, með leyfi forseta:

„Það eru umdeildu málin sem kalla á athygli. Langar umræður á Alþingi eru einmitt oftar en ekki tilraun til að ná eyrum þjóðarinnar í málum sem stjórnarandstaðan telur skaðleg og brjóta í berhögg við þjóðarvilja.

Annað veifið heyrast þær raddir að banna eigi þingmönnum að hafa langt mál um slík mál. Það væri mikið óráð. Eða vilja menn virkilega kæfa stjórnmálaumræðu í landinu? Þöggun á þingi mundi vera skref í þá átt.“

Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru einmitt að gera þetta. Þeir eru að ræða um mál sem er mjög umdeilt. Það er mjög umdeilt og kemur m.a. fram í umsögnum umsagnaraðila sem vel flestir vara við því að málið fari fram eins og það liggur fyrir. Hingað til höfum við hv. þingmenn tekið mark á umsagnaraðilum sem hafa komið hingað og ráðið okkur heilt.

Á þeim tíu árum sem ég hef verið meira og minna á þingi er mér mjög ofarlega í huga að horfa á hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hún hefur nákvæmlega staðið í þessum stól, farið yfir umsagnir umsagnaraðila og lagt þær fram sem rök í máli sínu og borið mikla virðingu fyrir því sem þar er sagt.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag frásögn frá blaðamannafundi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra í gær þar sem þau gefa mjög lítið fyrir þær umsagnir sem liggja fyrir í málinu. Samt eru það umsagnaraðilar sem við höfum borið mikla virðingu fyrir fram til þessa og talið hafa efnislegar athugasemdir í hverju því máli sem óskað er eftir að þeir veiti umsögn um.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gefa lítið fyrir mýgrút athugasemda fræðimanna og annarra um að stjórnarskrármálið sé unnið í of miklum og óeðlilegum flýti.“

Þessir umsagnaraðilar er þverskurður af þjóðinni en þau gefa sem sagt lítið fyrir þá aðila sem við höfum kosið sérstaklega að leita til vegna þekkingar þeirra á þessu máli.

Ég vil vísa því á bug að sjálfstæðismenn séu í málþófi. Svo virðist vera að eina innlegg þeirra í umræðunni síðustu daga sé um meint málþóf okkar sjálfstæðismanna. Ég legg áherslu á að við höfum miklar efnislegar athugasemdir við málið og teljum það þess eðlis að vert sé að taka lýðræðislega umræðu (Forseti hringir.) um það.