136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

461. mál
[14:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góð svör. Hún er greinilega búin að vinna mikið að þessu máli á vettvangi nefndarinnar og ég efast ekkert um að hugurinn á bak við þetta frumvarp er góður.

En ég get hins vegar ekki tekið undir að við framsóknarmenn séum að mála skrattann á vegginn þegar við fjöllum um þær spár sem opinberir aðilar hafa sett fram um hversu mörg fyrirtæki séu að verða gjaldþrota og hversu mikið atvinnuleysi er fyrirsjáanlegt. Við erum einfaldlega að tala um hlutina eins og þeir eru og hvernig þeir munu verða, gangi spárnar eftir. Þess vegna höfum við talað fyrir því að fara í róttækar lausnir á sviði efnahagsmála með því að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja um 20%. Ég vil upplýsa hv. þingheim um það að ég þekki marga mjög venjulega Íslendinga sem gerðu áætlanir fyrir um 20 mánuðum og sáu þá ekki fram á að tekjurnar í dag yrðu lægri nú en þá og sáu ekki fram á að lánin hefðu hækkað um 20% á umræddu tímabili. Það er allt önnur staða á Íslandi í dag.

Hv. þingmanni og góðum vinnufélaga hér á þingi, Álfheiði Ingadóttur, vil ég benda á að fulltrúar í stjórnmálaflokki Vinstri grænna, t.d. Lilja Mósesdóttir frambjóðandi VG, Eiríkur Bergmann Einarsson, einn helsti áhrifamaður í Samfylkingunni, og Tryggvi Þór Herbertsson, fulltrúi eða frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, hafa tekið undir með okkur framsóknarmönnum um að það beri að fara einhvers konar niðurfærsluleið.

Fulltrúar í öllum stjórnmálaflokkum eru farnir að taka undir þessa hugmynd. Nú spyr ég hv. þingmann hvort hún sé reiðubúin til þess að skoða einhverjar útfærslur á því að við færum lán heimilanna með einhverjum hætti niður, þ.e. leiðréttum þá óðaverðbólgu sem heimilin hafa þurft að greiða fyrir á undanförnum mánuðum á meðan tekjur heimilanna hafa minnkað dag frá degi.