136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:52]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Eins og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem hér hafa talað, kalla ég eftir því að fá skýrari svör við því hvað þessi þingfundur á að standa lengi. Það var talað um að það mundi taka tvo tíma ef við mundum klára mælendaskrána en ég held að engar líkur séu á því að við gerum það því okkur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins liggur mikið á hjarta í þessu máli og við erum búin að segja það margsinnis.

Þar fyrir utan liggur málið þannig fyrir að við erum eiginlega komin í þá stöðu að við erum að ræða frumvarpið í 2. umr. í einhverjum búningi sem er ekki lengur réttur búningur. Í þeim pólitísku hrossakaupum sem hér hafa farið fram við Framsóknarflokkinn þá er hann hættur við að gera kröfu um stjórnlagaþing þannig að við vitum ekki alveg hvað er í gangi. Erum við að tala um stjórnlagaþing eða erum við ekki að tala um stjórnlagaþing? Þess vegna ítreka ég líka það sem margsinnis hefur komið fram af okkar hálfu, sjálfstæðismanna, hvort ekki megi fresta umræðunni, 2. umr., og vísa málinu aftur til nefndar.

Ég ítreka enn og aftur að við þingmenn sem vinnum á þessum stað hljótum að eiga rétt á því að vita hvort við verðum hér til kl. tvö, þrjú eða fjögur, burt séð frá því hve margir eru á mælendaskrá. Það getur ekki verið mælendaskráin ein sem ræður því.