136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:55]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér fannst eins og ég kannaðist við sum þau sjónarmið sem fallið hafa í umræðunni um fundarstjórn forseta. Ég vil segja það sérstaklega að ég er mjög ánægður með fundarstjórn forseta, hún er skörugleg og skýr.

Ég vildi hins vegar aðeins nefna það í þessari umræðu — ég held að frá því að málið kom á dagskrá í 2. umr. séum við farin að nálgast 500 ræður um fundarstjórn forseta. Þar hefur ítrekað komið fram að málið er á forræði þingsins, málinu var vísað til sérnefndar. Hér eru fulltrúar sérnefndar sem eru tilbúnir að hlýða á alla umræðu hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ég tala nú ekki um hv. þm. Jón Magnússon sem nú ætlar að flytja í sjötta sinn ræðu við 2. umr. þessa máls. Við erum boðnir og búnir til að hlýða á þessi sjónarmið og (Forseti hringir.) hlusta mjög vandlega. (Forseti hringir.) Ef í þeim er að finna þau gullkorn að rétt sé að huga að því að fá málið (Forseti hringir.) til nefndar erum við að sjálfsögðu opnir fyrir því.